22.6.2024 | 11:25
Forsetakjör 2024
Um það má deila, hvenær Ísland varð ríki. Ef skilgreining Webers er notuð, einkaréttur á valdbeitingu, þá var það ekki fyrr en árið 1918. Ég tel skilgreiningu Hegels skynsamlegri, að ríkið sé einingarafl, vettvangur sátta og samstarfs, og samkvæmt því var Þjóðveldið íslenska ríki. Síðan færðist ríkisvald úr landi, fyrst til Noregs, síðan Danmerkur, en færðist aftur inn í landið árið 1918. Lögsögumaður verður að teljast hinn eiginlegi þjóðhöfðingi Þjóðveldisins, en þegar íslenskt ríki var aftur stofnað árið 1918, samdist svo um, að konungur Danmerkur yrði einnig þjóðhöfðingi á Íslandi.
Þá var Danakonungur nánast orðinn valdalaus, þótt látið væri svo heita, að ráðherrar beittu valdi sínu í umboði hans. Þegar konungur var afhrópaður árið 1944 (en óvíst var, hvort það væri heimilt samkvæmt sambandslögunum), tók þjóðkjörinn forseti við hlutverki hans. Hann fékk þó ekki eiginlegt neitunarvald eins og Danakonungur hafði haft, heldur aðeins vald til að synja lagafrumvörpum samþykkis, og tóku þau þó gildi, en bera þurfti þau undir þjóðaratkvæði.
Ólafur Ragnar Grímsson var eini forsetinn, sem lét á þetta synjunarvald reyna. Þegar fram líða stundir, munu flestir eflaust telja, að fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi ekki verið þess eðlis, að hann hefði átt að beita synjunarvaldinu, ólíkt Icesave-samningunum tveimur, sem vörðuðu ríka þjóðarhagsmuni. En því segi ég þetta, að í aðdraganda forsetakjörs nú í ár töluðu sumir frambjóðendur eins og forseti hefði víðtækt vald. Kusu þeir að horfa fram hjá 11. grein stjórnarskrárinnar, að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, og 13. greininni, að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt. Það var til dæmis fráleitt, eins og sagt var, að forseti gæti gengið gegn vilja meiri hluta Alþingis um, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hitt er annað mál, að forseti getur haft mikil áhrif stöðu sinnar vegna. En völd og áhrif eru sitt hvað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Facebook