Zagreb, apríl 2024

HHG2.Zagreb.24.04.2024Mér var falið að ræða um siðferði markaðsviðskipta í Hagfræði- og viðskiptaháskólanum í Zagreb í Króatíu 24. apríl 2024. Ég kvað auðvelt að mæla fyrir frjálsum viðskiptum. Ef einn á epli, en vantar appelsínu, og annar á appelsínu, en vantar epli, þá skiptast þeir á eplinu og appelsínunni, og báðir græða. Erfiðara virtist hins vegar vera að rökstyðja einkaeignarrétt á gæðum eins og eplum og appelsínum. John Locke hefði haldið því fram, að eignarréttur gæti myndast á gæðum, væri því skilyrði fullnægt, að hagur annarra versnaði ekki. David Hume hefði hins vegar talið nægja til að réttlæta einkaeign á gæðum, að enginn annar gæti sýnt fram á rétt sinn til þeirra.

Hvernig svo sem réttmætur einkaeignarréttur hefði myndast, væru hin almennu rök fyrir honum tvíþætt. Hann stuðlaði í fyrsta lagi að friði, því að garður væri granna sættir. Með því að skipta gæðum jarðar með sér minnkuðu menn líkur á átökum. Í annan stað auðveldaði einkaeignarréttur verðmætasköpun, því að menn færu betur með eigið fé en annarra. Menn ræktuðu eigin garð af meiri natni en annarra, enda greri sjaldnast gras í almennings götu.

Ég sagði stuðning við frjálst skipulag ýmist hafa verið sóttan í náttúrurétt eða nytsemi, en sjálfur teldi ég breska heimspekinginn Michael Oakeshott hafa sett fram gleggstu rökin fyrir því skipulagi. Þau væru, að í hinum vestræna nútímamanni hefði smám saman orðið til í langri sögu vilji og geta til að velja og hafna. Hann hefði stigið út úr ættbálknum og orðið einstaklingur. Rómeo og Júlía hefði ekki sætt sig við að vera aðeins Montagú og Kapúlett. Frelsið til að velja væri annað eðli nútímamannsins, og þeir, sem því höfnuðu, neituðu að gangast við sjálfum sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband