Sagnritun dr. Gylfa (3)

DarlingBrown.KenJack:AlamyNýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu íslenska bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, þótt ég sé ekki að reyna að endurskrifa söguna, heldur hafa það, sem sannara reynist. Hér skal ég benda á fjórar mikilvægar staðreyndir um bankahrunið, sem ég hef bent á, en aðrir leitt hjá sér, þar á meðal dr. Gylfi.
Fyrsta staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti ekki að beita hryðjuverkalögum til að koma í veg fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. Þegar hafði verið girt fyrir þann möguleika með tilskipun Breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans 3. október 2008, þar sem bankanum var bannað að flytja fé úr landi nema með skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins og þriggja daga fyrirvara. (Það reyndist ekki heldur vera fótur fyrir ásökunum um ólöglega fjármagnsflutninga Kaupþings til Íslands, enda þagnaði allt tal um það skyndilega.)
Önnur staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins braut samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þegar hún bjargaði öllum breskum bönkum öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Með því mismunaði stjórnin eftir þjóðerni, sem var bannað samkvæmt samningnum og líka Rómarsáttmálanum. Furðu sætir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli ekki hafa gert athugasemd við þetta.
Þriðja staðreyndin er, að þessir tveir bankar, Heritable og KSF, sem bresk stjórnvöld lokuðu, um leið og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum, reyndust eiga fyrir skuldum, þegar upp var staðið. Svo virðist sem sumir aðrir breskir bankar, sem fengu aðstoð, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland, hafi hins vegar ekki átt fyrir skuldum, þótt kapp sé lagt á að fela tapið og fresta uppgjörum.
Fjórða staðreyndin er, að íslensku bankarnir gerðust ekki sekir um nærri því eins alvarleg brot og til dæmis Danske Bank, sem varð uppvís að stórkostlegu peningaþvætti, og RBS, sem tók þátt í ólöglegri hagræðingu vaxta á millibankamarkaði. Það er kaldhæðni örlaganna, að Danske Bank og RBS hefðu báðir fallið haustið 2008, hefðu þeir ekki fengið lausafjáraðstoð frá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband