20.1.2024 | 15:38
Hvað olli synjuninni?
Í greinargerð, sem ég tók saman fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið 2008, reyndi ég að skýra, hvers vegna Íslendingum var þá alls staðar synjað um lausafjárfyrirgreiðslu nema í norrænu seðlabönkunum þremur. Jafnframt gengu bresk stjórnvöld hart fram gegn Íslendingum. Miklu hefði breytt, hefði seðlabankinn íslenski getað tilkynnt, að hann hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska og evrópska seðlabankann, til dæmis upp á tíu milljarða Bandaríkjadala. Spákaupmenn hefðu þá varla haldið áfram að veðja á fall bankanna og lækkun krónunnar.
Skýringar mínar voru margvíslegar. Bandaríkjamenn höfðu misst áhugann á Íslandi, eftir að landið hætti að vera hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum. Bresku stjórnmálamennirnir Gordon Brown og Alasdair Darling vildu sýna skoskum kjósendum sínum, að sjálfstæði í peningamálum væri varasamt. Evrópskir seðlabankamenn töldu íslensku bankana fjárfrekar boðflennur á evrópskum mörkuðum og ógna innstæðutryggingakerfi Evrópulanda. Raunar hefur síðan komið í ljós, að sumir þeir bankar, sem bjargað var með lausafjárfyrirgreiðslu í fjármálakreppunni 2008, voru verr staddir fjárhagslega en íslensku bankarnir og með ýmislegt á samviskunni (peningaþvætti og vaxtasvik), til dæmis RBS í Skotlandi, UBS í Svisslandi og Danske Bank.
Í grúski mínu rakst ég nýlega á enn eina hugsanlega skýringu á fjandskap evrópskra seðlabankamanna í garð Íslendinga. Á fundi Evrópuþingsins 13. janúar 2009 var þess minnst, að tíu ár voru frá upptöku evrunnar. David Corbett, leiðtogi breskra jafnaðarmanna á þinginu, sagði við það tækifæri: Evran hefur verið stöðug eins og klettur, og má hafa til marks um það misjafnt hlutskipti Íslands og Írlands. Vildi evrópski seðlabankinn ef til vill sýna, hvað það gæti kostað að standa utan evrusvæðisins?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook