Nýja Jórvík, nóvember 2023

IMG_1185Fyrst kynntist ég Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð mér og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sótti ég hann. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband