Lýðræðisumræðurnar í Danmörku

standard_N-f-s-grundtvig-portræt.v1Strax eftir stríð urðu fjörugar umræður á Norðurlöndum um framtíðartilhögun stjórnmála. Í Svíþjóð og á Íslandi snerust umræðurnar aðallega um þann boðskap Friedrichs von Hayeks, að sósíalismi færi ekki saman við lýðræði. Smám saman hurfu vinstri menn í báðum löndum þó frá róttækustu hugmyndum sínum.

Í Danmörku tóku umræðurnar á sig aðra mynd. Þar skrifuðu tveir kommúnistar, báðir prófessorar, Jørgen Jørgensen í heimspeki og Mogens Fog í læknisfræði, sumarið 1945 greinar í blöð um, að stríðið hefði sýnt, að ekki mætti leyfa andlýðræðisskoðanir. Ella yrði nasisminn hættulegur. Poul Andersen, prófessor í lögfræði, minnti þá á fræg orð Grundtvigs gamla, að frelsið væri ekki síður frelsi Loka en Þórs. Taldi hann erfitt að skilgreina, hvað væru andlýðræðisskoðanir.

Þessar umræður voru einkennilegar. Nasisminn var aldrei hættulegur í Danmörku. Hann hafði mjög lítið fylgi. En hefði átt að banna einhverjar andlýðræðisskoðanir (sem ég tel ekki), þá voru það skoðanir kommúnista, sem vildu koma á alræði og gengu erinda erlends stórveldis, Rússaveldis Stalíns.

Á heimasíðu, sem Háskólinn í Árósum heldur uppi fyrir ungt fólk um Danmerkursögu, er mikið efni úr þessum lýðræðisumræðum (demokratidebatten). Þar er þó ekki framlag Pouls Andersens, þótt greinar sumra kommúnistanna, sem þar eru birtar, séu einmitt andsvör við henni. Ég skrifaði ritstjóranum og benti á þetta. Hún svaraði mér kurteislega, að auðvitað ætti grein Andersens heima þarna, en hún hefði birst í Politiken, og erfitt gæti orðið að útvega leyfi fyrir henni. En margar aðrar greinar í umræðunum og á heimasíðunni birtust líka í Politiken. Áttu dönsk skólabörn aðeins að heyra sumar raddir?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. nóvember 2023. Myndin er af Grundtvig.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband