Helsinki, maí 2021

HHG.Helsinki.20.05.2023Helsinki er falleg og notaleg borg, með norrænu yfirbragði. Þar flutti ég erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Ég benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Ég benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júní 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband