23.4.2023 | 08:19
Höfn, apríl 2023
Næststærsta borg Portúgals, sem Fjölnismenn kölluðu Hafnarland, er Porto, Höfn. Miðbærinn við sjóinn er fallegur og notalegur. Hér var ég beðinn að segja nokkur orð 15. apríl um æskilegustu þróun Evrópusambandsins. Ég kvað stofnun þess hafa verið af hinu góðu. Frakkar og Þjóðverjar smíðuðu plóga úr sverðum og eins auðvelt varð að fara yfir landamæri og fyrir 1914, þegar ekki þurfti vegabréf til að komast leiðar sinnar um Norðurálfuna, nema ferðinni væri heitið til afturhaldsríkjanna, Tyrkjaveldis soldánsins eða Rússaveldis keisarans. En síðustu áratugi hefði Evrópusambandið smám saman verið að breytast úr ríkjasambandi (confederation) í sambandsríki (federation). Aðildarríkin væru að færa sífellt meira vald í hendur umboðslausra skriffinna í blekiðjubákninu í Brüssel. Þessari þróun þyrfti að snúa við. Færa þyrfti fullveldið, yfirráð eigin mála, aftur frá Brüssel til einstakra ríkja.
Nú sagði helsti postuli Evrópusambandshugsjónarinnar, Luigi Einaudi, að Þjóðabandalagið hefði misheppnast, því að það hefði ekki haft neitt framkvæmdarvald og engan her. En Atlantshafsbandalagið gegnir með prýði því hlutverki að verja Evrópu. Ég benti hins vegar á fordæmi um eðlilegt samstarf ríkja. Norðurlönd hefðu viðurkennt rétt til aðskilnaðar, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svía 1905, Finnar við Rússa 1917 og Íslendingar við Dani 1918. Landamæri hefðu verið færð til milli Danmerkur og Þýskalands eftir atkvæðagreiðslur í umdeildum landamærahéruðum 1920. Sérstökum hópum hefði verið tryggð sjálfstjórn, Álandseyingum í Finnlandi og Færeyingum í Danmörku. Og Norðurlandaráð hefði verið vettvangur samráðs og menningarsamvinnu, jafnframt því sem vegabréfa væri ekki lengur krafist milli norrænu ríkjanna og vinnumarkaður væri sameiginlegur, án þess þó að fullveldi einstakra ríkja hefði verið skert að ráði. Ekki mætti heldur gleyma því, að Norðurlönd voru í vel heppnuðu myntbandalagi frá 1873 til 1914.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. apríl 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook