Stighækkandi tekjuskattur

Árin 1494–1509 háði Flórens kostnaðarsamt stríð við Pisu. Ítalski sagnfræðingurinn Francesco Guicciardini sagði frá fundi í Æðsta ráði Flórens um, hvernig skipta skyldi kostnaðinum. Einn af þeim, sem tóku til máls, mælti: „Byrðarnar, sem lögð er á fátæklinginn og ríka manninn, eru taldar jafnar, þegar þeir leggja báðir fram tíunda tekna sinna. En þótt tíundi hlutinn af tekjum ríka mannsins skili sér í hærri skatttekjum en tíundi hlutinn af tekjum fátæklingins, á fátæklingurinn miklu óhægara með þessi útgjöld. Byrðar þeirra eru ekki jafnaðar með því, að báðir greiði sama hlutfall, heldur með því, að óhagræði þeirra af greiðslunum sé jafnt.“

Með þessari hugmynd er stighækkandi tekjuskattur réttlættur. Ríka manninum muni minna um háar skattgreiðslur en hinum fátæka. En þegar fyrir fimm hundruð árum benti Guicciardini á, að við þetta dregur úr vilja manna og getu til verðmætasköpunar. Stighækkandi tekjuskattur er í raun skattur á því að verða ríkur, brjótast til bjargálna, ekki skattur á því að vera ríkur. Guicciardini kvað ræðumanninn í ráðinu ef til vill hafa talað varlegar, hefði hann haft í huga, að yfirvöldunum væri ætlað að tryggja frelsi og frið borgarinnar og vernda íbúa hennar, en ekki að valda óróa og íþyngja þeim með ótal reglugerðum. Þetta er kjarni málsins. Ríkið veitir ákveðna þjónustu, og fyrir það eiga borgararnir að greiða. En greiðslan á að fara eftir þjónustunni, ekki greiðslugetu þeirra, alveg eins og á við um annars konar þjónustu. Fátæklingar þurfa að greiða sama verð fyrir brauð bakarans og ríkir menn, enda væru fá bakarí ella rekin. Stighækkandi tekjuskattur er órökréttur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband