19.3.2023 | 23:10
Atvik úr bankahruninu
Í nýrri bók minni um landsdómsmálið segi ég frá ýmum minnisstæðum atvikum úr bankahruninu. Davíð Oddsson seðlabankastjóri gekk á fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 til að vara við bankahruni. Á leiðinni út mætti hann þvögu af fréttariturum. Í miðjum hópnum var Sævar Cielselski, sem lét ófriðlega, en hann taldi ríkið hafa svikið sig um bætur. Strax og hann sá Davíð, gekk hann til hans. Davíð tók þétt í hönd hans og sagði: Ja, þetta hlýtur að vera mikilvægt, fyrst við erum báðir kallaðir til skrafs og ráðagerða. Við það stilltist Sævar.
Á þingfundi 24. nóvember 2008 snöggreiddist Steingrímur J. Sigfússon ræðu, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var að flytja. Hann skundaði upp að ræðustól, hallaði sér dreyrrauður fram að Birni og starði illilega á hann um stund. Síðan gekk hann að Geir H. Haarde, sem sat á ráðherrabekknum, sló fast í framhandlegg hans og hvæsti: Á þetta að ganga svona til?
Aðsúgur var gerður að Geir við Stjórnarráðshúsið 21. janúar 2009, þegar hann ætlaði inn í bíl sinn. Barði Hallgrímur Helgason rithöfundur margsinnis í hliðarrúðuna farþega megin, þar sem Geir sat í framsætinu, en fékk ekki brotið hana. Aðrir óróaseggir reyndu að stöðva ferð bílsins með því að klifra upp á vélarhlífina. Tókst lögreglu loks við illan leik að ryðja bílnum braut.
Á árshátíð Seðlabankans á Hótel Nordica 25. janúar 2009 reyndu grímuklæddir ofbeldismenn að brjóta sér leið inn í veislusalinn. Gestum var órótt, á meðan höggin dundu á dyrum salarins, en andrúmsloftið léttist, þegar Davíð Oddsson snaraðist upp í ræðustól og sagði, að árshátíðarnefndin hefði bersýnilega unnið gott starf, því að færri kæmust að en vildu. Loks varð lögreglan þó að fylgja Davíð og konu hans út um bakdyr.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.7.2023 kl. 13:20 | Facebook