19.3.2023 | 23:06
In dubio, pars mitior est sequenda
Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn. Þetta lögmál braut meiri hluti landsdóms árið 2012, þegar hann sakfelldi Geir H. Haarde fyrir að hafa vanrækt skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Minni hlutinn, þar á meðal hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason, benti á, að ákvæðið um ráðherrafundina átti uppruna sinn í því, að Ísland var konungsríki 19181944. Fór forsætisráðherra tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að halda ríkisráðsfundi með konungi og bar þar upp þau mál, sem konungur skyldi staðfesta. Bar hann ekki aðeins upp sín eigin mál, heldur líka mál annarra ráðherra fyrir þeirra hönd. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála. Kemur raunar skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið, sem samþykkt var 1920, að með mikilvægum stjórnarmálefnum var átt við þau mál, sem bera skyldi upp í ríkisráði. Ekkert sambærilegt ákvæði er heldur í dönsku stjórnarskránni. Eftir lýðveldisstofnunina var litið svo á, að með mikilvægum stjórnarmálefnum væri átt við þau mál, sem atbeina þjóðhöfðingjans þurfti til.
Meiri hluti landsdóms vildi hins vegar skapa úr þessu þrönga ákvæði víðtæka skyldu forsætisráðherra til að halda árið 2008 ráðherrafund um yfirvofandi bankahrun, sem hann hefði vanrækt, og sakfelldi hann ráðherrann fyrir þessa vanrækslu, þótt honum væri ekki gerð nein refsing. En fullkominn vafi leikur á því, að túlkun meiri hlutans sé rétt og hvenær ákvæðið ætti að hafa breytt um merkingu, frá því að það var sett. Geir var ekki látinn njóta þessa vafa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. janúar 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook