17.3.2023 | 09:42
Jóhannes Nordal
Kynni mín af Jóhannesi Nordal voru ekki mikil, en ætíð ánægjuleg. Þegar ég stundaði nám á Pembroke-garði í Oxford árin 19811985, var ég þar R. G. Collingwood verðlaunahafi, snæddi þrisvar í viku við háborðið með kennurunum og mátti taka með mér gest. Ég bauð Jóhannesi einu sinni þangað, þegar hann átti leið um, og áttum við skemmtilegar samræður. Við vorum báðir aðdáendur breskrar stjórnmálahefðar. Vorið 1984 bað tímaritið Mannlíf mig að skrifa svipmynd af Jóhannesi í tilefni sextugsafmælis hans, en vildi síðan ekki birta hana, því að ritstjóranum þótti hún of vinsamleg honum, og var hún prentuð í Morgunblaðinu 11. maí 1986. Jóhannes var þá eins og oft áður umdeildur, enda ekki fyrir neðan öfundina.
Ég lagði það til nýkominn frá námi, að Íslendingar hættu að nota krónuna og tækju upp Bandaríkjadal. Jóhannes gerði gilda athugasemd: Væru Íslendingar reiðubúnir að gangast undir þann aga, sem fælist í því að taka upp erlendan gjaldmiðil, þá ættu þeir að vera reiðubúnir að gangast undir slíkan aga án þess að þurfa að taka upp erlendan gjaldmiðil. Verður Jóhannesi seint kennt um það, þótt hann væri lengi seðlabankastjóri, að við Íslendingar höfum iðulega notað krónuna til að losna úr þeirri klípu, sem eyðsla umfram efni hefur komið okkur í.
Þegar ég gerði um aldamótin nokkra samtalsþætti undir heitinu Maður er nefndur, var einn hinn fróðlegasti við Jóhannes, en hann var tekinn upp, skömmu áður en hann missti röddina vegna sjúkdóms í talfærum. Viðmælandi minn sagði þar meðal annars frá föður sínum, Sigurði Nordal prófessor, og heimspekingunum Bertrand Russell og Karli R. Popper, sem höfðu haft mikil áhrif á hann, á meðan hann stundaði háskólanám í Bretlandi. Kom þar berlega í ljós, hversu vel Jóhannes fylgdist með og dómar hans um menn og málefni voru ígrundaðir. Þátturinn var á dagskrá 20. febrúar 2001.
Eftir að ég hafði gefið út ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum árin 20032005 og sætt fyrir ámæli ýmissa, sem töldu mig vera að ryðjast inn á svið öðrum ætlað, skrifaði Jóhannes mér upp úr þurru langt bréf og hældi mér óspart fyrir bókina, en gagnrýndi að sama skapi aðra, sem skrifað höfðu um skáldið. Mér þótti vænt um stuðninginn og bauð honum til kvöldverðar heima hjá mér ásamt vinum mínum Davíð Oddssyni, Jónasi H. Haralz og Þór Whitehead, og urðu þar fjörugar umræður um bókmenntir og sögu Íslendinga, og dró enginn af sér. Var Jóhannes þó mildastur í dómum. Þegar háskólamaður einn, sem einnig hafði haft nokkur afskipti af stjórnmálum, barst í tal, sagði hann aðeins: Já, hann hefur aldrei skrifað djúpan texta.
Jóhannes var umfram allt frjálslyndur, þjóðrækinn umbótasinni, sáttfús (jafnvel stundum um of) og góðgjarn. Um hann má hafa minningarorð, sem faðir hans Sigurður hafði sett saman um fyrsta háskólarektorinn:
ófullt skarð til tveggja handa,
rótafastar, fagurkrýndar,
friðarmerki skógarlanda.
Úfnar af þjósti og úlfaþyti
eftir birkirenglur standa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook