1.6.2007 | 14:22
Hvað hef ég lært af lífinu?
Ég sat ungur við fótskör nokkurra helstu hagfræðinga tuttugustu aldar, þeirra Friedrichs von Hayeks, Miltons Friedmans og James M. Buchanans. Ég lærði af þeim, að mannlegt samlíf getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt og að eins gróði þarf ekki að vera annars tap. Ég kynntist líka heimspekingunum Karli Popper og Robert Nozick, sem kenndu mér, að frelsið er heppilegra til að bæta heiminn en valdið. Þessar hugmyndir hafa verið leiðarljós mitt og baráttumál. Sem betur fer hefur Ísland frá 1991 breyst í þá átt, sem ég og samherjar mínir horfðu til.
Hugmyndir varða ekki mestu í lífi einstaklingsins, þótt framvinda sögunnar ráðist af þeim. Þar hef ég lært af eigin reynslu og annarra, að tilgangur lífsins er lífið sjálft, en það á sér tvær birtingarmyndir. Önnur er fjölskyldan í víðum skilningi, framlenging sjálfsins. Það hafa allir þörf fyrir að annast um aðra, vera með öðrum, treysta öðrum og vera treyst. Einn er maðurinn ei nema hálfur, orti skáldið. Hin birtingarmyndin er heilsan. Það er aðeins, þegar heilsan bregst, að menn átta sig, hversu mikils virði hún er. Menn eiga því að kappkosta að rækta fjölskylduna og heilsuna, því að með því rækta þeir lífið.
Ég hef lært margt annað á lífsleiðinni, þótt ekki sé víst, að ég breyti alltaf eftir því, enda getur holdið verið veikt, þótt andinn sé reiðubúinn. Einn lærdómurinn er, að ég veit ekki eða kann allt, fremur en nokkur annar. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur mennina að skipta með okkur verkum. Ég tel til dæmis, þótt ég hafi mikinn áhuga á stjórnmálum, að kröftum mínum sé betur varið til að skrifa og skrafa um stjórnmál en til að veiða atkvæði. Þess vegna hef ég aldrei sóst eftir því að fara í framboð. Þar hafa aðrir meiri hæfileika og eiga að beita þeim þar. Annað dæmi er, að ég hef gaman af að hlusta á söng, en kann ekki að syngja sjálfur. Við frjáls viðskipti og önnur samskipti geta menn einmitt notið hæfileika hvers annars án þess að hafa þá.
Þessu skylt er það, að við eigum ekki að gera okkur of miklar áhyggjur af því, sem við fáum engu breytt um. Við verðum að una hlutskipti okkar. Vandinn er hins vegar að vita, hvað það er, sem við getum haft áhrif á, og hvað ekki. Enn annar lærdómur minn er, að við eigum aldrei að gefast upp, þótt á móti blási. Það kemur dagur eftir nótt. En um leið og við eigum að herða upp hugann, eigum við að hita upp sálina til að sleppa við kal. Við höfum mörg dæmi um það hér á landi, til dæmis Björgólf Guðmundsson bankaeiganda, sem hefur sloppið ókalinn á hjarta úr miklum raunum. Líf hans ætti að vera öðrum fordæmi.
Til er góð spurning: Hvað myndir þú gera, væri þér sagt, að þú ættir aðeins eitt ár eftir ólifað og héldir fullri heilsu það ár? Ég veit, hvert mitt svar væri. Ég myndi í fyrsta lagi reyna að leggja þeim lið, sem eru í einhverjum skilningi vandamenn mínir. Þar held ég, að eina raunverulega hjálpin sé fólgin í að auðvelda þeim að afla sér menntunar og kaupa sér fasteign. Menn hjálpa til dæmis börnum ekki með því að fleygja í þau peningum. Ég myndi í öðru lagi reyna að sættast við andstæðinga mína. Það er ekkert eins gott fyrir sálarlífið og að fyrirgefa. Ég myndi í þriðja lagi reyna að njóta lífsins eins vel og ég gæti. En þá vaknar önnur góð spurning: Hvers vegna að gera þetta aðeins, ef ég á aðeins eitt ár eftir? Hvers vegna ekki að gera þetta allt, jafnvel þótt ég eigi mörg ár eftir?
Ísafold, júní 2007.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook