Hvað er Thatcherismi?

Þegar ég átti leið um Búdapest á dögunum, fékk John O’Sullivan, forstöðumaður Danube Institute þar í borg, mig um að tala á hádegisverðarfundi 10. nóvember um, hvort Margrét Thatcher hefði verið raunverulegur íhaldsmaður. Efnið er honum hugleikið, enda var hann góður vinur Thatchers, skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun endurminninga hennar.

Ég er sammála ýmum vinstri mönnum um, að Thatcherisma megi skilgreina með tveimur hugtökum, sterku ríki og frjálsum markaði. Í þessu er engin mótsögn fólgin, því að frjáls markaður krefst sterks ríkis, sem lætur sér hins vegar nægja að mynda umgjörð utan um frjáls samskipti einstaklinganna. Það tryggir, að þeir komist leiðar sinnar án árekstra, en rekur þá ekki alla í sömu átt.

Munurinn á Thatcher og ýmsum hörðum frjálshyggjumönnum var, að hún leit ekki á ríkið sem óvætt. Ríkið er nauðsynlegt til að sjá um, að ýmis svokölluð samgæði séu framleidd, til dæmis landvarnir, löggæsla, undirstöðumenntun og framfærsla þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir. Ríkið er líka óskráð samkomulag borgaranna um eina heild, ein lög. Þess vegna stofnuðu Íslendingar fullvalda ríki árið 1918: Þeir vildu vera sjálfstæð heild, ekki dönsk hjálenda.

Ég benti enn fremur á það í tölu minni, að frjáls markaður fæli vissulega í sér margvíslegt umrót, en um leið mikinn endurnýjunarmátt. Þótt gamlar heildir hyrfu, mynduðust nýjar. Þess vegna þyrftu íhaldsmenn ekki að óttast frjálsan markað. Nær væri að hafa áhyggjur af þeirri hugmynd, að ríkið ætti að breytast í umhyggjusama, ráðríka fóstru. Þá yrði fátt um þær dygðir, sem íhaldsmenn meta, til dæmis hugrekki, örlæti, vinnusemi, sparsemi og sjálfsbjargarviðleitni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband