Sigur Davíðs

Thatcher í NewsweekÞegar Tony Blair vann kosningasigur í Bretlandi 1997, birti bandaríska vikuritið Newsweek mynd af Margréti Thatcher á forsíðu undir fyrirsögninni „Hinn raunverulegi sigurvegari “. Það voru orð að sönnu, því að Blair vék lítt frá þeirri stefnu, sem Thatcher hafði markað frá 1979 við heiftarlega andstöðu flokkssystkina Blairs. Hinn nýi forsætisráðherra Verkamannafloksins hafði óbeint viðurkennt, að járnfrúin hafði haft rétt fyrir sér. Þegar Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 12. maí 2007, gerðist svipað. Fylgt var nær óbreyttri stjórnarstefnu. Þetta var sigur Davíðs Oddssonar. Eftir hörð átök fyrri ára viðurkenndi hinn nýi samstarfsflokkur óbeint, að Davíð hafði haft rétt fyrir sér.

Við erum fljót að gleyma. Þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína 30. apríl 1991, þótti eðlilegt, að ríkið ræki atvinnufyrirtæki í samkeppni við einkaaðila. Enn sjálfsagðara var talið, að ríkið styrkti þau fyrirtæki, sem gætu ekki staðið á eigin fótum. Skattar á fyrirtæki voru þungir, 45%, þótt fæst greiddu þá vegna tapreksturs. Skattar á einstaklinga voru einnig þungir. Verðbólga hafði um langt skeið verið miklu meiri en í grannríkjunum og þrálátur hallarekstur á ríkissjóði. Stjórnmálamenn og umboðsmenn þeirra skömmtuðu mestallt tiltækt fjármagn, og þá skiptu flokksskírteini ósjaldan meira máli en hæfileikar til nýsköpunar.

Davíð lagði til atlögu við þennan Golíat. Hann tæmdi hjá sér biðstofuna með því að leggja niður opinbera sjóði. Hætt var að nota almannafé til að halda uppi taprekstri fyrirtækja. Með aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum hjaðnaði verðbólga niður í hið sama og í grannlöndunum (en þjóðarsáttin svonefnda frá 1990 snerist í raun aðeins um tímabundna verðstöðvun). Hallarekstri ríkisins var snúið í afgang, sem nýttur var til að greiða upp skuldir. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í 18%, en skatttekjurnar jukust samt stórkostlega. Þær runnu til stóraukinnar velferðaraðstoðar. Á Íslandi eru barnabætur til láglaunafólks og lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Norðurlöndum. Fátækt er hér samkvæmt alþjóðlegum mælingum ein hin minnsta í heimi og tekjuskipting tiltölulega jöfn.

Eignaskattur, sem bitnað hafði á öldruðu fólki með lágar tekjur og talsverðar eignir og þess vegna verið kallaður ekknaskattur, var felldur niður. Erfðafjárskattur var stórlækkaður. Tekjuskatturinn, sem ríkið innheimtir af einstaklingum, lækkaði úr 31% í 23% á tíu árum. Þó hafa skatttekjur ríkisins af þessum skatti stóraukist. Áður hafði ríkissjóður haft litlar sem engar tekjur af fjármagnseigendum, enda hafði arður verið lítill í fyrirtækjum, húsaleigutekjur lítt komið fram í skattframtölum og vaxtatekjur verið skattfrjálsar. Nú varð til nýr fjármagnstekjuskattur, sem reynst hefur ríkinu drjúg tekjulind. Hinar stórfelldu skattalækkanir frá 1991 hafa skilað stórkostlegum árangri.

Einkavæðingin skilaði ekki síður árangri. Fyrirtæki ríkisins voru seld fyrir mikið fé, röska 100 milljarða króna. Það var eins og þau lifnuðu þá við, sérstaklega viðskiptabankarnir. Önnur tegund einkavæðingar fólst í því, að fjármagn, sem áður var óvirkt, eigendalaust, óskráð, óveðhæft og óframseljanlegt, varð nú virkt. Það var leyst úr læðingi í orðsins fyllstu merkingu. Þetta á bæði við um samvinnufyrirtæki og fiskistofna, en árin eftir 1990 festist kvótakerfið í sessi og er nú öfundarefni annarra þjóða, sem tapa stórfé á fiskveiðum. Mikið fjármagn hefur safnast saman í íslensku lífeyrissjóðunum, sem eru að fyllast, á sama tíma og lífeyrissjóðir margra grannþjóða eru að tæmast. Hina ævintýralegu útrás síðustu ára má rekja til þess, að hér myndaðist feikilegt nýtt fjármagn, um leið og fyrirtækjum var búið hagstætt umhverfi.

Stjórnarsáttmáli Þingvallastjórnarinnar nýju ber með sér, að Samfylkingin vill læra af reynslunni. Þar er lögð áhersla á að skapa íslensku atvinnulífi samkeppnishæft umhverfi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem forðum virtist lifa og nærast á andstöðu við Davíð Oddsson, tekur nú undir þau sjónarmið, sem hann beitti sér fyrir. Áður hafði gamall mótherji Davíðs, Ólafur Ragnar Grímsson, vakið á sér athygli með ötulum stuðningi við íslensku útrásina. Sinnaskiptum þessara fornu fjandmanna Davíðs ber að fagna. Sumir eru önnum kafnir að strika út af listum, til dæmis Jóhannes í Bónus, eins og alræmt varð í nýliðnum þingkosningum. Aðrir telja betra að bæta við á listum, fjölga frekar samherjum en andstæðingum, sættast, þar sem sættast má. Forsætisráðherra Þingvallastjórnarinnar, Geir H. Haarde, er bersýnilega í þeim hópi. Hann lyftir merkinu frá Davíð fumlaust.

Fréttablaðið 1. júní 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband