31.10.2021 | 10:22
Fórnarlambalaus brot
Félagsvísindamenn, lögregluþjónar og fangaverðir komu saman á ráðstefnu á Akureyri 6. október 2021 til að ræða um löggæslu, refsingar og afbrotavarnir. Framlag mitt var erindi um, hvernig löggjafinn gæti fækkað verkefnum lögreglunnar, svo að hún gæti einbeitt sér að þeim, sem brýnust væru. Þetta mætti gera með því að hætta að eltast við þær athafnir manna, sem ættu sér engin fórnarlömb, og nefndi ég í því sambandi vændi, klám, innherjaviðskipti og skattahagræðingu.
Leiðarljós mitt var frá heilögum Tómas af Akvínas, sem segir í riti sínu um lögin (96. spurning, 2. grein, í þýðingu Þórðar Kristinssonar): Lög manna eru sett fjölda manna, sem að meiri hluta eru ekki fullkomlega dygðugir. Og þess vegna banna mannalög ekki alla þá lesti, sem dygðugir menn forðast, heldur einungis alvarlegri lesti, sem meiri hlutanum er fært að forðast, og einkum þá, sem eru öðrum til sársauka og sem eru þannig, að væru þeir ekki bannaðir, væri ekki unnt að viðhalda samfélagi manna; þannig banna mannalög morð, þjófnað og þess háttar.
Ég hef áður rætt hér um vændi og klám, en minni á, að aðstaða vændiskvenna og klámleikara hefur snarbatnað við það, að milliliðir eru þar að hverfa úr sögunni. Á netinu geta þessir hópar nú átt viðskipti beint við þá, sem vilja kaupa af þeim þjónustu. Margir eiga hins vegar erfitt með að skilja, að innherjaviðskipti eigi sér ekki alltaf fórnarlömb. En lítum á einfalt dæmi. Hluthafi í fyrirtæki fær innherjaupplýsingar um það á fimmtudegi, að fyrirtækið muni hækka í verði á mánudag. Hann kaupir fleiri hlutabréf og hagnast talsvert, þegar þau hækka. Þá spyrja einhverjir: Töpuðu ekki hinir hluthafarnir, sem fengu ekki þessar upplýsingar? Svarið er nei. Það er rangt að draga hið háa verð hlutabréfanna á mánudag (sem allir hluthafar njóta) frá hinu lága verði þeirra á fimmtudag (sem öllum stóð til boða) og skilgreina það sem tap annarra hluthafa. Þeir eru ekki verr settir en áður. Þeir áttu ekki rétt á, að innherjinn deildi upplýsingum sínum. Þeir eru engin fórnarlömb. Þá er auðvitað gert ráð fyrir, að upplýsingarnar hafi verið fengnar án svika eða blekkinga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. október 2021.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Facebook