Hvað getur hægrið gert?

Í stystu máli má segja, að vinstrið telji nauðsynlegt að beita valdi til að bæta heiminn, en hægrið vilji frekar sjálfsprottna þróun við einkaeignarrétt, viðskiptafrelsi og valddreifingu. Ég hef rakið hér helstu skýringar á því, að vinstrið hefur sótt í sig veðrið: Eftir sigur í Kalda stríðinu sameinar engin ógn hægrið; vinstrið hefur horfið frá þjóðnýtingu og sættir sig með semingi við kapítalismann; þeim kjósendum hefur fjölgað, sem háðir eru ríkinu um afkomu sína; og vinstrið hefur náð undirtökum í skólum og fjölmiðlum, hrifsað til sín dagskrárvaldið.

Á ráðstefnu í Lissabon 24. september ræddi ég, hvernig hægrið gæti brugðist við. Í fyrsta lagi hefur kínverski kommúnistaflokkurinn hafið nýtt kalt stríð gegn Vesturlöndum, þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þetta mun breyta viðhorfum á næstu árum. Í öðru lagi vill vinstrið enn óhófleg ríkisafskipti, en þau hafa þveröfugar afleiðingar við það, sem ætlað var. Þetta sáu Svíar um og eftir 1990. Frumkvöðlar fluttust úr landi sökum þungrar skattbyrði, og engin ný störf urðu til í einkageiranum, aðeins í opinbera geiranum. Peningarnir vaxa ekki á trjánum. Fleiri munu enduruppgötva þessi einföldu sannindi en Svíar.

Þar sen hægrið hefur völd, þarf það síðan að einbeita sér að tveimur verkefnum. Annað er að fjölga þeim, sem eru efnalega sjálfstæðir, óháðir ríkinu, meðal annars með áframhaldandi sölu ríkisfyrirtækja og auknum tækifærum einkaaðila til að veita þjónustu. Auðvelda þarf fólki að brjótast út úr fátækt í stað þess, að það sitji þar fast. Hitt verkefnið er að hætta að styrkja þá, sem reyna í skólum og fjölmiðlum að grafa undan vestrænni menningu. Þeir eiga að sjálfsögðu að hafa frelsi til að boða skoðanir sínar, en á eigin kostnað, ekki skattgreiðenda.

Að lokum skiptir þó mestu máli að leggja fram haldbærar röksemdir og gögn um það, að affarasælast sé að leyfa einstaklingum og atvinnulífi að vaxa og dafna við frelsi. Þetta gera ótal hugveitur á okkar dögum. Sjálfur tel ég þó, að mikilvægasta röksemdin fyrir einstaklingsfrelsi sé, að það sé orðið okkar annað eðli. Við á Vesturlöndum höfum öðlast vilja og getu til að velja. Við erum einstaklingar, ekki aðeins laufblöð á trjágreinum. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. október 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband