3.9.2021 | 12:08
Hallað á tvo aðila
Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir tók sæti í Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sagði hún í blaðaviðtali: Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu. Sigríður átti auðvitað við Fjármálaeftirlitið, sem átti samkvæmt lögum að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem átti að sjá um fjármálalegan stöðugleika.
Með þessum fyrirframdómi varð Sigríður tvímælalaust vanhæf, þótt hún neitaði að víkja, er eftir því var leitað. Nokkrar aðrar ástæður voru til að draga í efa hæfi nefndarmanna. Þegar Björgólfsfeðgar keyptu Landsbankann 2003, var föður Sigríðar, sem hafði verið yfirmaður lögfræðisviðs bankans, sagt upp. Þetta varð fjölskyldunni mikið áfall, eins og heimildir eru til um. Annar nefndarmaður, Tryggvi Gunnarsson, átti son, sem missti við bankahrunið starf sitt í Landsbankanum, og tengdadóttir hans gegndi yfirmannsstöðu í Fjármálaeftirlitinu.
Deila má um, hvort þessar viðbótarstaðreyndir hafi einar sér valdið vanhæfi. En á daginn kom, að rannsóknarnefndin hallaði frekar á Landsbankann en hina viðskiptabankana og á Seðlabankann frekar en Fjármálaeftirlitið. Til dæmis var í skýrslu nefndarinnar rangt farið með nokkrar lánveitingar til Björgólfsfeðga úr bönkum, og sú staðreynd var vandlega falin, að lántökur þeirra í Landsbankanum minnkuðu miklu hraðar árin fyrir bankahrun en lántökur annarra eigendahópa í sínum bönkum.
Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn fann nefndin ekkert athugavert við embættisfærslur seðlabankastjóranna þriggja nema það, að þeir hefðu ekki aflað nægra upplýsinga til stuðnings tveimur ákvörðunum, sem þó voru taldar eðlilegar, að neita Landsbankanum um lausafjárfyrirgreiðslu í ágúst 2008 og Glitni um neyðarlán í september sama ár. En Seðlabankinn hafði ekki aðgang að slíkum upplýsingum, aðeins Fjármálaeftirlitið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook