Styrmir Gunnarsson

Sá Styrmir Gunnarsson, sem ég kynntist ungur, var ólíkur hinni opinberu mynd af Morgunblaðsritstjóranum, en hann átti að vera klækjarefur með alla þræði í hendi sér. Sá Styrmir, sem ég þekkti, hafði þrjár eiginleika til að bera í meira mæli en flestir aðrir: hann var trygglyndur, vinnusamur og tilfinninganæmur. Hann var um árabil einn nánasti trúnaðarmaður Geirs Hallgrímssonar, enda sagði Geir mér úti í Lundúnum haustið 1981, að hann vildi helst, að Styrmir tæki við formennsku af sér. Er bók Styrmis um átökin í Sjálfstæðisflokknum á áttunda og níunda áratug hin fróðlegasta. En Styrmir var ekki síður tryggur æskuvinum sínum, jafnvel þótt þeir hefðu haslað sér völl annars staðar, og þótti okkur sjálfstæðismönnum stundum nóg um.
Styrmir var afar vinnusamur, vakinn og sofinn á Morgunblaðinu, en um leið jafnan reiðubúinn að eyða löngum tíma í spjalli yfir hádegisverði eða kaffibolla, og kom þá í ljós, hversu áhugasamur hann var um fólk. Hann hugsaði miklu frekar í mönnum en málefnum, fannst mér stundum. Þó var hann eindreginn fylgismaður lýðræðisþjóðanna í Kalda stríðinu og stundaði þá upplýsingaöflun fyrir Vesturveldin, eins og hann lýsir í einni bók sinni. Hann sagði mér, að þeir Matthías Johannessen hefðu ákveðið eftir sigurinn í Kalda stríðinu að beita ekki hinu mikla afli Morgunblaðsins til að gera upp við íslenska kommúnista. Græða þyrfti sár frekar en stækka. En hann efaðist samt stundum um, að sú ákvörðun hefði verið rétt, sérstaklega eftir að hann las bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna.
Styrmir var í þriðja lagi mjög tilfinninganæmur. Hann var í hjarta sínu, fannst mér, enginn sérstakur stuðningsmaður hinna ríku og voldugu, eins og margir héldu, heldur hafði hann óskipta samúð með lítilmagnanum, hver sem hann var. Hann tók alltaf svari smákapítalistanna gegn stórlöxunum. Jafnframt átti hann til mikla blíðu. Við sátum stundum að skrafi á skrifstofu hans á Morgunblaðinu, og var hann þá hinn ákveðnasti, en ef dætur hans hringdu, tók hann alltaf símann og málrómurinn breyttist, röddin lækkaði og mýktist. Hann reyndist fjölskyldu sinni og vinum mjög vel, og hann elskaði land sitt og þjóð fölskvalaust. Hann var þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.
(Minningargrein í Mbl. í dag. Myndin er af dr. Arnóri Hannibalssyni prófessor, Styrmi og dr. Þór Whitehead prófessor í kvöldverðarboði Davíðs Oddssonar til heiðurs utanríkisráðherrum Eystrasaltslandanna 25. ágúst 1991, þegar Ísland varð fyrst landa til að endurnýja viðurkenningu sína á þessum löndum.)
Arnór.Styrmir.Þór.25.08.1991

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband