Bænarskrá kertasteyparanna

Engum hefur tekist betur að mæla fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum en franska rithöfundinum Frédéric Bastiat. Ein kunnasta háðsádeila hans á tollverndarmenn er „Bænarskrá kertasteyparanna“, sem birtist árið 1846. Framleiðendur kerta, vax, tólgs, eldspýtna, götuljósa og annars ljósmetis senda bænarskrá til franska fulltrúaþingsins. „Við þurfum að sætta okkur við óþolandi samkeppni erlends aðila, sem nýtur slíks forskots í ljósframleiðslu, að vara hans flæðir inn á innlendan markað á hlægilega lágu verði. Um leið og hann kemur á vettvang, hættir vara okkar að seljast, neytendur flykkjast til hans, og einn geiri fransks atvinnulífs sér fram á fullkomna stöðnun með margvíslegum afleiðingum. Þessi aðili er enginn annar en sólin.“

Höfundar bænarskrárinnar benda á, að löggjafinn geti skapað þörf fyrir tilbúið ljós með því að takmarka aðganginn að náttúrlegu ljósi, til dæmis með því að skylda fólk til að loka dyrum og byrgja glugga á daginn. Við það geti framleiðsla á tólg til dæmis aukist, svo að kvikfjárrækt verði umfangsmeiri, en það leiði aftur til víðáttumeiri bithaga og örvi framleiðslu á kjöti, ull og tilbúnum áburði. Takmörkun á náttúrlegri ljósframleiðslu sé atvinnulífinu í hag.

Bastiat tekur annað dæmi til samanburðar. Ef glóaldin (appelsína) frá Lissabon er helmingi ódýrari en glóaldin frá París, þá er það vegna þess, að náttúrlegur og um leið ókeypis hiti frá sólinni veitir framleiðendum í Lissabon náttúrlegt forskot. Þeir þurfa aðeins að leggja á sig helminginn af fyrirhöfn framleiðendanna í París. Þetta nota tollverndarmenn sem röksemd fyrir að takmarka innflutning glóaldina frá Portúgal. En ef framleiðsluvara er bönnuð fyrir að vera að hálfu leyti ókeypis, á þá ekki að banna vöru, sem er að öllu leyti ókeypis?

Bastiat sýnir með þessum dæmum, að alþjóðleg verkaskipting veitir okkur aðgang að alls konar gæðum, sem við ráðum ekki sjálf yfir. Fiskur er veiddur ódýrar á Íslandi og vín ræktað ódýrar í Síle en víða annars staðar, og aðrir jarðarbúar njóta þess síðan í frjálsum alþjóðaviðskiptum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. febrúar 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband