2.2.2019 | 11:41
Ragnar Árnason
Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 verður Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sjötugur. Hann er í röð fremstu fræðimanna Háskóla Íslands og ráðgjafi ríkisstjórna um heim allan á sérsviði sínu.
Af mörgu er að taka, en ég staldra einkum við tvö verk Ragnars. Annað er fræg ritgerð í Canadian Journal of Economics árið 1990, Minimum Information Management in Fisheries. Þar leiðir höfundur rök að því, að ýmsar þær aðferðir, sem stungið hafi verið upp á til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum, krefjist meiri þekkingar en völ sé á. Hins vegar sé kerfi framseljanlegra aflakvóta tiltölulega einfalt í framkvæmd.
Hitt verkið er tvær rækilegar skýrslur, sem Ragnar átti aðalþáttinn í að semja fyrir Alþjóðabankann og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2017, kenndar við Sunken Billions. Þar er bent á, að stórkostlegum verðmætum er kastað á sæ, af því að úthafsveiðar eru víðast stundaðar með of miklum tilkostnaði. Er mat Ragnars, að árleg sóun í sjávarútvegi heims sé á bilinu 51 til 105 milljarðar Bandaríkjadala.
Það er ekki síst ráðgjöf Ragnars að þakka, að í íslenskum sjávarútvegi hefur þróun komið í stað sóunar. En afmælisbarnið hefur skrifað um ýmis önnur efni, þar á meðal snjalla greiningu á jöfnunaráhrifum tekjuskatts, jafnvel þótt flatur sé. Ragnar er líka afburðafyrirlesari, skýr og rökvís. Á næstu dögum verður vinum hans og velunnurum boðið að rita nöfn sín á heillaóskalista í afmælisriti með helstu fræðigreinum hans, sem koma á út næsta vor, og þá heldur Félagsvísindasvið Háskóla Íslands einnig alþjóðlega ráðstefnu honum til heiðurs.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook