4.8.2018 | 14:40
Fyrir réttum tíu árum
Hús Seðlabankans við Kalkofnsveg er líkt og hús flestra annarra seðlabanka heims smíðað eins og virki, og sést þaðan vítt um sjó og land. Mikið var um að vera í þessu virki í sumarblíðunni fimmtudaginn 31. júlí 2008. Seðlabankastjórarnir þrír, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, hittu tvo fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins, Michael Ainley og Melanie Beaman, sem voru að fylgja eftir óskum stofnunarinnar um færslu Icesave-reikninga Landsbankans úr útbúi bankans í Lundúnum í breskt dótturfélag bankans. Þannig yrðu reikningarnir í umsjá breska innstæðutryggingasjóðsins. Seðlabankastjórarnir kváðust vera sammála breska fjármálaeftirlitinu um að þetta væri nauðsynlegt.
Seðlabankastjórarnir þrír kvöddu síðar sama dag á sinn fund bankastjóra Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, og komu þar þeirri skoðun sinni á framfæri, eins og þeir höfðu áður gert, að færa yrði Icesave-reikningana hið bráðasta yfir í breskt dótturfélag. Davíð sagði umbúðalaust að ekki væri hægt að ætlast til þess af hinu smáa íslenska ríki að það tæki ábyrgð á Icesave-innstæðunum, enda stæðu engin lög til þess. Þið getið sett Björgólf Guðmundsson á hausinn ef þið viljið, sagði hann, og eruð sjálfsagt langt komnir með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja þjóðina á hausinn með þessum hætti.
Um kvöldið buðu seðlabankastjórarnir einum af æðstu mönnum Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Basel, William R. White, í kvöldverð í Perlunni, en hann hafði verið að veiða hér lax. Talið barst, eins og við var að búast, að hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu sem geisað hafði allt frá því í ágúst 2007. White sagði Davíð: Það er búið að ákveða að einn stór banki verði látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land, og það verðið þið. Davíð spurði: Hvað ertu búinn að fá þér marga gin og tónik? White svaraði: Bara einn. Lehman-bræður fóru í þrot 15. september sama ár, og íslensku bankarnir þrír hrundu dagana 6.-8. október.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Facebook