Ábyrgð og samábyrgð

Í athyglisverðri bók, sem kom út árið 2007, veltir gamall kennari minn í Oxford-háskóla, David Miller, fyrir sér hugtökunum þjóðarábyrgð og hnattrænu réttlæti. Eitt dæmi hans er af götuóeirðum (National Responsibility and Global Justice, bls. 114–115). Sumir óeirðaseggir veita lögreglumönnum áverka, aðrir valda tjóni á verðmætum. Enn aðrir eru óvirkari, eggja menn áfram, leggja sitt af mörkum til þess, að uppnám myndist og ótti grípi um sig.

Miller telur, að ábyrgð hvers og eins á leikslokum fari auðvitað að miklu leyti eftir verkum þeirra. En í sjálfum óeirðunum verður til eitthvað annað og meira, segir hann. Þar skipta fyrirætlanir manna í upphafi og verk þeirra ef til vill ekki eins miklu máli og þátttaka þeirra í atburðarás, sem leiðir af sér áverka lögreglumanna, tjón á verðmætum, ógnun við góða allsherjarreglu. Þar verður til samábyrgð allra þátttakenda, að sumu leyti óháð fyrirætlunum þeirra og einstökum verkum.

Mér varð hugsað til greiningar Millers, þegar ég rifjaði upp götuóeirðirnar á Ísland frá því um miðjan október 2008 og fram í janúarlok 2009, en þeim lauk snögglega, eftir að vinstri stjórn var mynduð. Bera þeir, sem hvöttu aðra áfram í ræðum á útifundum, til dæmis háskólakennararnir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, ekki einhverja ábyrgð á áverkum og eignatjóni vegna óeirðanna? Fróðlegt væri að heyra skoðun íslenskra siðfræðinga á því. Ekki væri verra að fá útskýringar Harðar Torfasonar (sem átti þá snaran þátt í því að skipuleggja mótmælaaðgerðir) á því, við hann átti í viðtali við Morgunblaðið um mótmælafund einn haustið 2010: „Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“ Á bak við tjöldin? Er hér ekki komið rannsóknarverkefni fyrir samtökin Gagnsæi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband