Samábyrgð Íslendinga eða Breta?

Í Icesave-deilunni héldu þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason því fram, að Íslendingar væru allir samábyrgir um Icesave-reikningana og yrðu þess vegna að bera kostnaðinn af þeim (en hann var þá metinn á um 15-30% af landsframleiðslu, meira en Finnar greiddu Rússum í skaðabætur eftir stríðið 1941-1944). Ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, skrifaði 2015 meistaraprófsritgerð undir handleiðslu Vilhjálms, þar sem hann reyndi að styðja þessa skoðun rökum kunnra heimspekinga um þjóðarábyrgð, þar á meðal míns gamla kennara Davids Millers.

Tvær ástæður voru þó til þess, að Sævari hlaut að mistakast. Í fyrsta lagi lá ábyrgð einkaaðila ljós fyrir og var tæmandi. Þetta voru viðskipti Landsbankans, sem þurfti lausafé að láni, og erlendra fjárgæslumanna, sem girntust háa vexti bankans. Það var þessara aðila og eftir atvikum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að bera áhættuna af viðskiptunum, ekki annarra. Í öðru lagi var ekki um neitt tjón hinna erlendu fjárgæslumanna að ræða, því að með neyðarlögunum 6. október 2008 var kröfum þeirra og allra annarra innstæðueigenda á bankana veittur forgangur, og hafa þær nú allar verið greiddar.

Ekki var því um neina samábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum að ræða. Hinu má velta fyrir sér, hvort skilyrði Millers og annarra heimspekinga fyrir þjóðarábyrgð eigi við um Breta sakir fautaskapar þeirra við Íslendinga í bankahruninu. Þá lokaði stjórn Verkamannaflokksins tveimur breskum bönkum, KSF og Heritable, en bjargaði öllum öðrum breskum bönkum. Lokun KSF leiddi beint til falls Kaupþings. Uppgjör hefur nú sýnt, að KSF og Heritable voru báðir traustir bankar, og ekkert fannst misjafnt í rekstri þeirra. Eini glæpur þeirra var að vera í eigu Íslendinga. Enn fremur beitti Verkamannaflokksstjórnin að nauðsynjalausu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og birti jafnvel um hríð nöfn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og Landsbankans á lista um hryðjuverkasamtök á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins.

Hefði Sævar Finnbogason ekki heldur átt að hugleiða samábyrgð Breta á þessari hrottalegu framkomu við fámenna, vopnlausa, vinveitta nágrannaþjóð?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband