Hæg voru heimatök

Samkvæmt því sem Platón segir, bað einn viðmælandi Sókratesar eitt sinn menn að hugsa sér, hvað þeir myndu gera, bæru þeir hring, sem gerði þá ósýnilega. Taldi hann flesta þá myndu brjóta af sér. Bankahrunið íslenska var um sumt líkt hringnum ósýnilega. Í uppnáminu þá gátu menn gert ýmislegt, sem fáir tóku eftir og hefði líklega ekki verið verið látið óátalið undir öðrum kringumstæðum.

Ég hef opinberlega nefnt nokkur dæmi: Starfsmenn Glitnir Securities í Noregi keyptu fyrirtækið á 50 milljónir norskra króna, þótt bókfært eigið fé þess væri 200 milljónir. Viku síðar seldu þeir helminginn í fyrirtækinu á 50 milljónir. Kaupandinn var verðbréfafyrirtæki með bækistöð á annarri hæð í sama húsi og Glitnir Securities. Hæg voru heimatök. Í Finnlandi keyptu starfsmenn Glitnir banka, sem var finnskt dótturfélag íslenska bankans, á €3.000, þótt eigið fé þess væri bókfært €108 milljónir. Fimm árum síðar seldu kaupendurnir bankann á €200 milljónir. Minna má líka á sölu Glitnir Bank í Noregi og FIH Bank í Danmörku.

Ég rakst í rannsóknum mínum á enn eitt dæmið, sem farið hefur hljótt. Árið 2006 hafði íslenski Glitnir keypt sænska verðbréfafyrirtækið Fischer Securities fyrir 425 milljónir sænskra króna og breytt nafni þess í Glitnir Sverige. Anders Holmgren var ráðinn forstjóri. Þegar Glitnir hrundi, var fyrirtækið auglýst til sölu. Eigið fé þess var þá 190 milljónir króna. Ekki virtist vera völ á sams konar aðstoð frá sænska ríkinu og Carnegie banki fékk skömmu síðar. Samið var um, að HQ banki keypti fyrirtækið á 60 milljónir. Sá banki hét eftir upphafsstöfum stofnenda hans og aðaleigenda, Sven Hagströmer og Mats Qviberg. Forstjóri HQ banka leyndi því ekki í viðtölum við sænsk blöð, að hann væri ánægður með kaupin. Bókfærður hagnaður HQ banka af kaupunum var í árslok 2008 84 milljónir króna. Ekki er síður athyglisvert, að þeir Anders Holmberg, forstjóri Glitnir Sverige, og Qviberg eru mágar, Qviberg kvæntur systur Holmbergs. Hæg voru heimatök.

Ef til vill datt einhverjum í hug annað íslenskt spakmæli, Illur fengur illa forgengur, þegar sænska fjármálaeftirlitið lokaði HQ banka árið 2010 vegna alls kyns fjárglæfra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband