12.3.2016 | 19:41
Á Hugvísindaþingi 2016
Ég skrapp á málstofu um Valdarán á Hugvísindaþingi 12. mars 2016. Anna Agnarsdóttir prófessor flutti fróðlegt erindi um Jörund hundadagakonung og viðhorf og viðbrögð breskra ráðamanna og íslenskra embættismanna. Hún hafði orð á því, að sagan um Jörund væri skrýtin og skemmtileg. Ég gat ekki stillt mig um að bæta við, að Uffe Ellemann Jensen, sem var lengi utanríkisráðherra Dana, hefði eitt sinn sagt mér í kvöldverði, að hann hefði gefið Friðrik ríkisarfa og Mary, konuefni hans, í brúðkaupsgjöf bók um Jörund, en hann bar beinin í Tasmaníu. Þaðan er Mary. Hló Uffe Ellemann dátt að þessum danska ævintýramanni og valdabrölti hans á Íslandi. Ég bætti því við, að hin raunverulega hetja þessa tíma væri Sir Joseph Banks, sem hefði bjargað Íslendingum frá hungursneyð með því að telja bresk stjórnvöld á að leyfa verslun við landið, þótt það væri hjálenda Dana, sem þá voru í stríði við Breta.
Sævar Finnbogason heimspekinemi ræddi um Icesave-deiluna og var margorður um andvaraleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda. Ég spurði, hvað stjórnvöld hefðu átt að gera, hefðu þau trúað varnaðarorðum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, en ekki afgreitt þau eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um fund 7. febrúar 2008) sem dramatík. Þau hefðu ekki getað skipað bönkunum að minnka með því að selja eignir, og bankarnir hefðu skiljanlega verið tregir til að selja eignir, á meðan þær voru á óeðlilega lágu verði. Fátt var um svör. Það var á Sævari að skilja, að Seðlabankinn hefði átt að nota gjaldeyrisforða sinn til að aðstoða Landsbankann við að flytja Icesave-innstæðurnar úr útibúi í dótturfélag. Ég benti á, að Björgólfur Thor Björgólfsson hefði í nýlegri bók sagt, að Samfylkingin hefði ráðið því, að Kaupþing fékk lán skömmu fyrir hrun. Furðaði ég mig á því, að fréttamenn spyrðu ekki ráðherra Samfylkingarinnar um þetta, til dæmis Össur Skarphéðinsson. Á meðal gesta á málstofunni var Jón Guðni Kristjánsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Væntanlega lætur hann einskis ófreistað að komast að hinu sanna um þetta mál.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur talaði um fjölmiðlafrumvarpið 2004 og synjun forseta á að staðfesta lögin frá Alþingi. Hann lýsti deilunni um frumvarpið sem valdabaráttu tveggja manna, Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég benti á, að í nútíma sagnfræði væri reynt að víkka sjóndeildarhringinn út frá einstökum mönnum. Deilan um frumvarpið hefði aðallega verið um það, hvort fámenn auðklíka, Baugsklíkan, ætti að ráða skoðanamyndun í landinu. Ég væri ekki sammála starfshóp, sem samið hefði eins konar siðferðisviðauka við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, um allt, en hann hefði þó haft rétt fyrir sér um það, að hér hefði verið auðmannaræði 20042008. Það hefði verið vegna sigurs auðklíkunnar í deilunni um fjölmiðlafrumvarpið. Þegar hætta væri á einokun á einhverju sviði, væri oftast hægt að leysa málið með því að tengjast alþjóðlegum markaði, en það hefði ekki verið hægt á fjölmiðlamarkaðnum: Hann hefði takmarkast við Íslendinga eina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook