Jóhann Páll, haninn, vofan og hrossið

herganga_kommu_769_nista_1278401.jpgJóhann Páll Árnason heimspekingur veitir mér ráð í tölvubréfi: „Þessi linnulausi hanaslagur þinn við vofu kommúnismans er ömurlegt sjónarspil, og heyrir undir það sem kallað er á ensku "flogging dead horses"; skynsamlegra væri að gera eitthvað til að tolla í tíðarandanum. Nú eru umbrotatímar í íslenzkum stjórnmálum, og ein af sennilegri útkomum sýnist mér vera endurnýjun Sjálfstæðisflokksins með tilstuðlan Viðreisnar og Pírata. Þá held ég að þið Davíð standið uppi sem einhvers konar Neanderdalsmenn frjálshyggjunnar, til athlægis og viðvörunar þeim sem kenningunni vilja beita af meiri dómgreind og verkkunnáttu. Væri ekki rétt að hugsa um endurhæfingu meðan tími er til?“

Jóhann Páll skiptir svo ört um líkingar, að lesandinn má hafa sig allan við. Fyrst er hanaslagur, en haninn verður allt í einu að vofu, hún breytist skyndilega í dautt hross, og loks birtist sjálfur tíðarandinn, der Zeitgeist, og fer svo hratt yfir, að við Neanderdalsmennirnir stöndum uppi öðrum til athlægis og hljótum að fara í endurhæfingu. Orðið „endurhæfing“ hljómar þó ískyggilega. Í kommúnistaríkjunum voru þeir, sem ekki hugsuðu eins og valdsmenn vildu, sendir í „endurhæfingu“, en það merkti linnulausa tilraun til að afmá einstaklingseðli þeirra og uppræta sjálfstæða hugsun. Og hvort sem við andstæðingar alræðis teljumst Neanderdalsmenn eða ekki, er hitt rétt, að við stöndum uppi, en féllum ekki kylliflatir eins og Jóhann Páll og fleiri gáfnaljós fyrir voldugustu alræðisstefnu tuttugustu aldar, sem olli dauða eitt hundrað milljón manna.

Ég skil vel, að gömlum marxista eins og Jóhanni Páli sárni, þegar saga kommúnismans er rifjuð upp. Hann kærir sig ekki um taka þátt í slíkri upprifjun. „Á ég að halda ljósi að minni smán?“ spyr Jessíka í Kaupmanni í Feneyjum. Þeir, sem héldu á lofti minningunni um fórnarlömb nasismans, fengu oft að heyra, að óþarfi væri að vekja upp gamla drauga. Þær úrtöluraddir eru þagnaðar. En ekki ber síður að halda á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans. Þótt þjóðir Austur-Evrópu hafi hrundið kommúnismanum af höndum sér og hann ummyndast í eitthvað annað í Rússlandi og Kína, eru tvö kommúnistaríki eftir, Norður-Kórea og Kúba. Og þótt vofa kommúnismans gangi ekki lengur ljósum logum um Evrópu, er hún á kreiki á meðal kennaraliðsins í vestrænum háskólum. Kapítalisminn hefur unnið mestallan heiminn, svo að alþýða manna hefur týnt hlekkjum fátæktar og kúgunar. En áreiðanlega eru til einhverjir, sem reiðubúnir væru að smíða nýja hlekki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. mars 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband