Furðuleg ummæli Þorvalds Gylfasonar

Már Guðmundsson seðlabankastjóri bendir á það, að skuldir þjóðarbúsins hafa minnkað stórlega og ríkið er að verða skuldlaust, eins og það var fyrir 2007. Þá skrifar Þorvaldur Gylfason prófessor á Facebook síðu sína:

Seðlabanki eða spaugstofa? Íslendingar hlupu frá himinháum skuldum við útlendinga. Þá getur nú varla talizt fara vel á því að berja sér á brjóst og segjast vera í toppmálum.

Íslendingar? Bankarnir voru einkafyrirtæki. Viðskipti þeirra og viðskiptavina þeirra voru einkamál þessara tveggja aðila. Uppgjör skulda þeirra er í rauninni úrlausnarefni skiptaráðenda og kröfuhafa, þótt auðvitað yrði ríkið að hafa hönd í bagga með þessu. Íslenska ríkið stofnaði nýja banka á rústum hinna gömlu og flutti eignir og skuldir yfir í þá. Þetta var allt gert samkvæmt lögum. Neyðarlögin frá 6. október 2008 hafa til dæmis verið staðfest af Hæstarétti og dómstólum erlendis. 

Þorvaldur er bersýnilega við sama heygarðshornið og þegar hann vildi, að íslenskir skattgreiðendur tækju að sér skuldir einkafyrirtækis, Landsbankans, af því að það væri siðferðilega rétt að gera það. Hann skrifaði 25. júní 2009 í Fréttablaðið:

Hugsum okkur, að úr því fengist skorið fyrir rétti, að Íslendingum bæri ekki lagaskylda til að greiða IceSave-ábyrgðirnar. Myndu Bretar þá með fulltingi annarra Evrópuþjóða falla frá kröfum sínum á hendur Íslendingum? Svarið er nei, ekki endilega. Krafa Breta væri þá siðferðileg frekar en lagaleg. … Bankastjórarnir sögðust hafa ríkisábyrgð. Stjórnvöld sögðust fram að hruni mundu styðja við bankana, ef á þyrfti að halda. Viðskiptavinir Landsbankans á Bretlandi voru því í góðri trú. Þess vegna kunna Bretar og aðrir að líta svo á, að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögunum líður.

Þegar Þorvaldur var spurður á Beinni línu DV 21. mars 2013, hvort hann teldi enn siðlaust að hafa ekki greitt Icesave-kröfu Breta og Hollendinga, svaraði hann:

Ég kannast ekki við neitt siðleysistal í sambandi við Icesave-málið. Málið snerist um ólíkt áhættumat. Sumir töldu líkt og ríkisstjórnin og vænn hluti stjórnarandstöðunnar á þingi öruggara að ganga að samningum, aðrir ekki. Eðlilegt var, að kjósendur afgreiddu málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið fékk á endanum farsælar lyktir fyrir Íslendinga, þegar dómur féll Ísendingum í vil. Sumum kom dómurinn á óvart, öðrum ekki. Flókin dómsmál eru oft þess eðlis, að ágreiningur um þau er eðlilegur.

Þorvaldur fór í framboð 2013 til að tryggja, að stjórnarskráin, sem hann samdi með nokkrum söngfélögum sínum, hlyti staðfestingu þjóðarinnar. Hann fékk 2,45% atkvæða. Ég spái því, að hann fengi enn lægra hlutfall, færi hann í framboð þessum skoðunum sínum til stuðnings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband