Frá fundinum með Vinstri grænum

hhg_05_03_2016.jpgÉg var einn framsögumanna á fundi í stjórnmálaskóla ungra Vinstri grænna laugardaginn 5. mars 2016. Umræðuefnið var bankahrunið 2008, orsakir og afleiðingar.

Ég vísaði á bug þremur algengum skýringum á bankahruninu: of stórum bönkum (þeir voru stærri í Skotlandi og Sviss, og ekki féllu þeir); glannaskap bankamanna (RBS, UBS og Danske Bank voru engu betri, og ekki féllu þeir); og nýfrjálshyggju (sama regluverk var hér og í öðrum EES-ríkjum, auk þess sem þrettán hagkerfi voru frjálsari 2004 en hið íslenska, og ekki hrundu bankakerfin þar). Fyrirsjáanleg kreppa hefði orðið að hruni vegna fólsku Breta og sinnuleysis Bandaríkjamanna.

Ég ræddi hins vegar sérstaklega um eina ályktun, sem sumir drógu af bankahruninu — að Ísland væri of lítil eining til að standa á eigin fótum. Tveir fræðimenn hafa sett fram kenningar um þetta, prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson.

Fyrst ræddi ég rök Siberts. Hún sagðist efast um, að hagvöxtur væri meiri í litlum ríkjum en stórum. En lítil ríki eru almennt ríkari en stór. Ríkustu hagkerfi heims eru í Sviss, Lúxemborg, Noregi, Bandaríkjunum og Singapúr. Öll eru þetta smáríki nema Bandaríkin (sem eru 50 smáríki). Fjölmennustu hagkerfin eru í Kína, Indlandi, Bandaríkjunum, Brasilíu og Indónesíu. Þau eru öll fátæk nema Bandaríkin.

Sibert sagði líka, að lítil hagkerfi væru óstöðugri en stór og meiri áhætta þar af náttúruhamförum. Það kann að vera rétt. En íslenska hagkerfið er tiltölulega fljótt að jafna sig eftir hagsveiflur og hamfarir, eins og Hannes Finnsson biskup benti raunar á í Mannfækkun af hallærum 1796.

Sibert taldi stærðarhagkvæmni vera af stórum hagkerfum, til dæmis vegna þess að fastur kostnaður dreifðist þá á fleiri menn. Af hverju er þá heimurinn allur ekki eitt hagkerfi? Annars er aukakostnaður Íslands af því að halda uppi ríki óverulegur. Til dæmis kostar rekstur utanríkisþjónustunnar aðeins brotabrotabrot af landsframleiðslu. Smáríki eru líka tregari en stórveldi til að leggja út í hernaðarævintýri.

Sibert taldi fámenn ríki eins og Ísland skorta hæfileikafólk í opinbera þjónustu. Það er rétt, að færra hæfileikafólk hlýtur að vera í fámennari löndum, en þar er áreiðanlega nógu margt til að reka þær opinberu stofnanir, sem þarf. Raunar er óvíst, að hæfileikafólk leiti sérstaklega í stjórnsýslu. Og hvers vegna sáu allir erlendu vitringarnir fjármálakreppuna ekki fyrir?

Síðan ræddi ég rök Baldurs. Hann taldi smáríki þurfa skjól. Íslendingar hefðu farið í skjól Noregs á sínum tíma, síðan Danmerkur, þá Bretlands og loks Bandaríkjanna. Nú þyrftu þeir að fara í skjól Evrópusambandsins.

Ég benti á, að skjól gæti reynst gildra. Svo hefði verið um „skjólið“ af Noregi og Danmörku. Konungur hefði gert samsæri um það við hina fámennu innlendu landeigendastétt að halda sjávarútvegi niðri, svo að hann missti landið ekki í hendur erlendra aðila, en við það hefðu Íslendingar fest sig í fátæktargildru, eins og Gísli Gunnarsson hefði lýst í Upp er boðið Ísaland.

Aðalatriðið væri eins og Jón Sigurðsson benti á, að skjólin væru mörg. Ísland þyrfti varnir og viðskiptasambönd, ekki við eitt land, heldur mörg. Ekkert skjól væri í Evrópusambandinu, þótt sjálfsagt væri að versla við þjóðir þess eins og aðrar þjóðir. Íslendingum væri nær að reyna að koma aftur á sambandi við Bandaríkin. Staður Íslands væri með grönnunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum.

Ég sagði stuttlega sögu Nefjólfssona, en hinn fyrsti þeirra, Þórarinn Nefjólfsson, reyndi að telja Íslendinga á að ganga Noregskonungi á hönd. Vilhjálmur frá Sabína hefði líka hneykslast á því, að Íslendingar hefðu ekki konung eins og allar aðrar þjóðir. Gegn þeim hefðu staðið ósviknir Íslendingar, Einar Þveræingur, Staðarhóls-Páll og Jón Sigurðsson. Nú á dögum létu ýmsir þeirra Nefjólfssona í sér heyra og töluðu belgísku. Þeim hefði Snorri Hjartarson svarað best:

Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,

þér var ég gefinn barn á móðurkné;

ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,

þú leiddir mig í orðsins háu vé. …

Ísland, í lyftum heitum höndum ver

ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.

 

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, flutti líka framsöguerindi. Hann sagði, að frjálshyggjan hefði náð heljartökum á Íslandi, og bærum við Davíð Oddsson höfuðábyrgð á því. Rofin hefði verið samstaða þjóðarinnar. Auðmenn hefðu steypt landinu í glötun. Það hefði síðan bjargað þjóðinni eftir bankahrun, að samstaðan hefði aukist aftur.

Ég benti Ögmundi á, að vinstri menn hefðu gengist undir próf árið 2004. Þá hefði Davíð Oddsson lagt fram á þingi frumvarp, sem átti að takmarka kost auðmanna á að ráða skoðanamyndun í landinu. Vinstri menn hefðu snúist gegn því. Þeir hefðu gerst þý auðmanna. Við hinir hefðum ekki gengið erinda auðmanna, heldur reynt að fjölga tækifærum fólks til að efnast, enda gætum við sofið á næturnar, þótt öðrum gengi vel. Ég minnti síðan á, að vinstri stjórnin 2009–2013 hefði rofið samstöðu landsmanna með hefndaraðgerðum sínum, til dæmis landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, og með óþörfum, en kostnaðarsömum samningum í Icesave-málinu.

Ögmundur reyndi að gera gys að þeim orðum mínum, að flesta dreymdi um að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ég sagðist telja, að þetta væri rétt lýsing á áhugamálum venjulegs, eðlilegs, heilbrigðs fólks, sem vildi bæta kjör sín og sinna og lifa þægilegu lífi í rúmgóðum og hlýjum húsum, grilla kjöt eða fisk í kvöldmatinn, þegar vel viðraði, og dreypa á rauðvíni með, sjá börnin vaxa úr grasi og síðan barnabörnin.

Margar spurningar bárust utan úr sal. Ein var, hvort kapítalisminn væri ekki óstöðugur. Ég taldi svo vera, en þegar að væri gáð, væri það oft vegna misráðinna ríkisafskipta. Til dæmis hefðu undirmálslán í Bandaríkjunum og lágvaxtastefna bandaríska seðlabankans blásið upp bólu, sem síðan hefði sprungið. Annar vandi væri, að ekki hefði tekist að verðleggja áhættu nógu vel á fjármálamörkuðum. Ný fjármálatækni hefði farið úr böndunum.

Önnur spurning var, hvort kapítalisminn leiddi til ójafnrar tekjudreifingar. Ég sagðist ekki vera viss um það, enda teldi ég ójafna tekjudreifingu ekkert sérstakt áhyggjuefni. Tómas Piketty hefði ef til vill rétt fyrir sér um, að tekjudreifing væri að verða ójafnari á Vesturlöndum, en í heiminum í heild hefði hún orðið jafnari, því að Kína og Indland hefðu hafið þátttöku í alþjóðaviðskiptum, orðið hluti heimskapítalismans, en við það hefðu mörg hundruð milljónir manna flust úr lágstétt í miðstétt.

Þá var ég spurður um barnaþrælkun í fátækum löndum og auðklíkur í ríkum löndum. Ég svaraði því til, að vandinn í fátækum löndum væri fátæktin, ekki kapítalisminn, en fátæktin hyrfi með auknum kapítalisma. Þau lönd í suðri, sem stunduðu mest viðskipti við Vesturlönd, væru ríkust, en þau lönd, sem einangruðu sig, væru fátækust.

Ég sagði, að gera yrði greinarmun á markaðskapítalisma og klíkukapítalisma. Donald Drumpf væri til dæmis klíkukapítalisti. Hann vildi vernd ríkisvaldsins gegn keppinautum (frá Kína og Indlandi að ógleymdu Mexíkó). Á Íslandi hefði verið rekinn markaðskapítalismi 1991–2004, sem ég hefði stutt, en klíkukapítalismi 2004–2008, þegar auðmenn hefðu ráðið hér öllu með góðum stuðningi vinstri manna (þótt ótrúlegt megi virðast).

Ég benti hins vegar á, að það gæti verið kostur frekar en galli, að kapítalistar ættu sér ekkert föðurland annað en fjármagnið. Þeir hugsuðu ekki um, hvernig bakarinn væri á litinn, heldur hvernig brauðið væri á bragðið. Veitingamaður hefði minni áhuga á kynhneigð viðskiptavina sinna en kaupum þeirra á þjónustu hans.

Ég bætti því við, að frelsinu yrði að fylgja siðferðileg festa og ábyrgðarkennd. Kapítalisminn hefði í sér fólgin tvö ólík öfl, tortímingu og sköpun. Honum fylgdi skapandi tortíming, en sú tortíming mætti ekki verða of bráð (innflutningur fólks til dæmis of ör), því að þá snerist fólk til fylgis við furðuhreyfingar eins og framboð Drumpfs í Bandaríkjunum. Aðalatriðið um kapítalismann væri sköpunin. Aldrei hefðu færri verið fátækari hlutfallslega í heiminum en nú.

Helstu andmælin úr salnum voru við þá skoðun mína, að hugsa ætti betur um neytendur í heilbrigðismálum: Þeir yrðu að fá að velja, enda hæfðu ólíkar lausnir ólíkum einstaklingum. Þeir yrðu að standa andspænis ólíkum kostum, þótt sjálfsagt væri að tryggja öllum lágmarksþjónustu. Þetta máttu ungir vinstri grænir ekki heyra nefnt. Þeir töldu, að allir yrðu að fá sömu þjónustuna.

Áheyrendur voru málefnalegir og kurteisir. Er ólíku saman að jafna við það, er veist var að mér á Austurvelli í ágúst 2009, þegar ég mótmælti fyrsta Icesave-samningnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband