Hugleiðingar að loknum afmælisdegi

Ég varð 63 ára hinn 19. febrúar 2016. Þetta var enginn stórafmælisdagur, en það var samt notalegt að hafa komist svo langt. Ég hef haft nóg að éta og sloppið við að vera étinn, sem er meira en segja má um flest dýr jarðarkringlunnar frá öndverðu.

Ég hélt upp á afmælisdaginn suður í löndum, en ég hef það mér til afsökunar eins og farfuglarnir, að ég kem alltaf aftur heim með vorinu. Ég er þakklátur samkennurum mínum, sem hafa rýmkað um starfstilhögun mína, svo að ég get farið að dæmi farfuglanna. Mér þykir vænt um þeirra góða hug í minn garð. Og annað má segja um fjarlægðina: Hún kennir okkur að meta Ísland. Árni Pálsson prófessor orðaði þetta vel, þegar hann sagði um sína kynslóð, sem hafði hlotið menntun sína í Danmörku: „Hvergi hefur Ísland verið elskað heitar en í Kaupmannahöfn.“

Í löngum fjarvistum fer ekki hjá því, að ég sakni vina og vandamanna heima, enda er það allt úrvalsfólk. En því ánægjulegri verða endurfundirnir. Mér finnst þó leitt, hversu snemma foreldrar mínir féllu frá, faðir minn 63 ára, móðir mín 74 ára. Þau hefðu haft gaman af að samgleðjast mér og systkinum mínum með, hversu vel allt hefur þrátt fyrir allt gengið.

Er ég hamingjusamur? Ég las á dögunum sjálfsævisögu Herberts Spencers, sem sagðist telja, að hamingjan væri æðsti mælikvarðinn á siðferðileg kerfi. En hann bætti því við, að menn ættu ekki að stefna að hamingjunni, því að þá gengi hún þeim úr greipum. Menn ættu frekar að fara eftir föstum og arfhelgum reglum, og þá fylgdi hamingjan með í eins konar kaupbæti. Ef marka má Spencer, þá er þess vegna of snemmt að svara spurningunni. Hamingjan er verðlaun að keppninni lokinni frekar en einhver innri tilfinningu. Hún er fullnægja frekar en ánægja. Hitt veit ég, að ég er sæmilega sáttur við lífið, enda við góða heilsu, í tiltölulega öruggu starfi og með prýðileg laun (að minnsta kosti laun, sem nægja mér).

Ég hef líka yndi af þeim verkefnum, sem mér hafa verið falin, jafnt kennslu og rannsóknum. Þessa dagana er ég eins og oft síðustu tvö árin að taka saman efni í skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Margt er mjög merkilegt í þeirri sögu allri.

Þrír vinir mínir, Davíð Oddsson, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, gáfu mér málverk á sextugsafmælinu, Hannes ófullgerður, sem átti að minna á það, að margt væri ógert. Og það er svo sannarlega rétt. Ég hef fullan hug á því að taka þeirri áskorun, sem fólst í gjöfinni. Hér er samantekt á því, sem ég gerði árið 2015.

Sé ég eftir einhverju? Auðvitað. Kvíði ég fyrir einhverju? Líklega aðallega tvennu, Elli kerlingu, sem hlýtur að leggja í glímu við mig eins og alla aðra, og hugsanlegri annarri heimskreppu, því að vestræn ríki hafa ekki leyst þann vanda, sem kom í ljós árin 2007–2008. En ég er samt sammála Ólafi Thors um, að menn eiga ekki að eyða ævinni í það að sjá eftir eða kvíða fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband