1.3.2016 | 12:21
Kom Þór Saari upp um eigin trúnaðarbrot?
Ég las að morgni fimmtudagsins 11. febrúar 2016 mér til mikillar furðu fréttagrein um mig á netmiðlinum Hringbraut. Greinin hafði verið sett inn tíu mínútur eftir miðnætti. Hún var um það, að Þór Saari, fyrrverandi alþingismaður, hefði upplýst á Facebook, að ég hefði haft ríkisábyrgð á kreditkorti mínu einn allra Íslendinga. Þór hefði komist að því, þegar hann starfaði fyrir Lánasýslu ríkisins, en hann var starfsmaður hennar 20022007. Þetta hefði ratað í fréttir Stöðvar tvö í janúar 2004. Hringbraut segir síðan: Hringbraut hefur sent Hannesi Hólmsteini fyrirspurn þar sem falast er eftir viðbrögðum, hvort hann staðfesti orð Þórs.
Hringbraut hefur mér vitanlega ekki sent mér neina fyrirspurn, hvorki í tölvupósti né á skilaboðum á Facebook eða með símhringingu eða símaskilaboðum, eins og auðvelt hefði verið að gera. Netfang mitt er til dæmis í símaskránni. Ég hef einmitt sent Hringbraut fyrirspurn um, hvenær og hvernig mér hafi verið send þessi fyrirspurn. Þetta er auðvitað með afbrigðum óvönduð blaðamennska. Raunar hefðu Hringbrautarmenn ekki heldur átt að birta neina frétt, fyrr en þeir hefðu leitað til mín um viðbrögð: Lá þeim svo á, að fréttin var skrifuð og birtist laust eftir miðnætti?
Málavextir eru einfaldir, og var sagt frá þeim opinberlega á sínum tíma, eins og Þór Saari rifjar upp, þótt hann fari að vísu ekki nákvæmlega með. Ég notaði á sínum tíma kort frá American Express. Þetta fyrirtæki var þá einstaklega óþjált og erfitt í viðskiptum, og eitt af því, sem það heimtaði, var, að viðskiptabanki minn, Landsbankinn, sem þá var ríkisbanki, ábyrgðist greiðslur af korti mínu upp að 10 þúsund Bandaríkjadölum. Þar sem hentugra var sums staðar að nota American Express kortið en Visa kort, sem ég hafði líka, fékk ég bankann til að gangast í slíka ábyrð og greiddi fyrir sérstakt ábyrgðargjald árlega.
Þegar Landsbankinn var seldur, var tekinn saman listi yfir þá aðila, sem höfðu notið ábyrgðar hjá bankanum sem ríkisbanka. Af einhverjum ástæðum var nafn mitt á þeim lista ásamt nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins! Er það auðvitað með ólíkindum og mér algerlega óskiljanlegt. Ég vissi ekki af þessu, fyrr en Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, þáverandi fréttamaður hjá Stöð tvö, hafði samband við mig til að spyrja mig um þetta. Kom ég þá alveg af fjöllum, en gat ekki litið á þetta nema sem eitthvert gaman. Ekkert varð þá frekar úr málinu, enda var það ekkert mál, og bað starfsfólk Landsbankans mig afsökunar á þessum mistökum, sem ég tók fúslega við.
En frétt Hringbrautar af þessu segir sína sögu og þá ekki aðeins um óvandaða blaðamennsku Hringbrautarmanna. Fréttin segir líka sína sögu um Þór Saari. Hann skýrir á Facebook frá einkamálefnum mínum, sem hann komst að í starfi sínu hjá Lánasýslu ríkisins árin 20022007. Raunar bætir hann um betur með því að tala um fjárhagsvanda, sem ég hafi skapað mér!
229. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo:
Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
230. grein laganna hljóðar svo:
Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.
Ég sé ekki betur en Þór Saari hafi brotið þessar greinar hegningarlaganna með skrifum sínum á Facebook. En það er ekki allt og sumt. Hver skyldi hafa verið heimildarmaður Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, þáverandi fréttamanns á Stöð tvö, um málið fyrir tólf árum? Veitir Þór ekki sterka vísbendingu um eigið trúnaðarbrot með þessum Facebook-færslum?
(Hringbrautarmenn segjast hafa sent mér fyrirspurn á Facebook, en mér barst hún aldrei.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.3.2016 kl. 09:33 | Facebook