Þjóð berst við eld og ís

Saga íslensku þjóðarinnar var fyrstu þúsund árin saga um baráttu við eld og ís. Næst var þjóðin því að tapa stríðinu í Skaftáreldum 1783–1784, þegar eldsumbrot voru svo stórkostleg hér á landi, að öll Norðurálfan fann fyrir þeim, en hafís lá að ströndum fram eftir vorum. Féll um fimmtungur þjóðarinnar, tíu þúsund manns, í Móðuharðindunum, sem nefnd voru eftir hinum eitraða mekki yfir landinu. Í bókinni Mannfækkun af hallærum, sem Hannes Finnsson Skálholtsbiskup samdi skömmu síðar til að sýna, að landið væri þrátt fyrir allt byggilegt, nefndi hann, að árið 1784 hefðu Danir velt því fyrir sér í alvöru að flytja allt fólk af landinu. Magnúsi Stephensen dómara sagðist eins frá síðar, og Jón Sigurðsson forseti bætti því við, að ætlunin hefði verið að flytja Íslendinga á Jótlandsheiðar.

Þessi fróðleikur var tekinn upp í íslenskar kennslubækur, uns Þorkell Jóhannesson prófessor taldi sig hafa hrakið hann. Hafði hann rannsakað danskar heimildir og fundið það eitt þessu til staðfestingar, að rætt hefði verið 1785 um að flytja þurfamenn til Danmerkur. Var niðurstaða Þorkels, að sagan um einhverja hugmynd eftir Móðuharðindin um brottflutning allra Íslendinga væri þjóðsaga. Hvarf sá fróðleikur við svo búið úr kennslubókum.

Í Skírni 1971 andmælti Sigurður Líndal prófessor að vísu skoðun Þorkels með þeim rökum, að ekki yrði gengið fram hjá jafnáreiðanlegum heimildarmanni og Hannesi Finnssyni. Þá hafði þó engin sjálfstæð heimild fundist, er treysti eða staðfesti frásögn Hannesar.

Anna Agnarsdóttir prófessor fann hins vegar slíka heimild snemma á tíunda áratug. Var hún að skoða skjöl í Þjóðskjalasafni Breta, og leið að lokunartíma. Þá rak Anna skyndilega augun í skýrslu frá breska sendiráðinu í Kaupmannahöfn frá 22. nóvember 1785, og hafði skýrslan verið send á dulmáli og það síðan verið ráðið. Þar skrifaði skýrsluhöfundur, James Johnstone: „Mér skilst, að nýlega hafi verið til umræðu að flytja íslensku þjóðina til ýmissa yfirráðasvæða Dana.“ Ber þessari heimild saman við það, sem Hannes Finnsson skrifaði, eins og Anna benti á í Nýrri sögu 1993. Þetta þarf auðvitað ekki að rekast á hitt, sem Þorkell Jóhannesson fann gögn um, að 1785 hefði einnig verið rætt um takmarkaðri aðgerð, að flytja þurfamenn af landinu.
Sagan um, að Danir hafi um skeið velt því fyrir sér í fúlustu alvöru að flytja þjóðina burt af landinu, er því ekki þjóðsaga, heldur styðst við traustar heimildir, hvort sem Jótlandsheiðar voru fyrirhugaður leiðarendi eða ekki. Litlu mátti muna í baráttunni við eld og ís. En þjóðin hafði betur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. janúar 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband