24.2.2016 | 15:54
Hirðuleysið verðlaunað
Hirðuleysi (sloth á ensku) er ein af höfuðsyndunum sjö. Mér varð hugsað til þess, þegar ég las bók Jóns Ólafssonar um Veru Hertzsch, Appelsínur frá Abkasíu, sem út kom 2012. Vera var þýsk, en fluttist til Moskvu 1927. Þar eignaðist hún barn með Benjamín Eiríkssyni hagfræðingi. Barnið var aðeins ársgamalt og Benjamín farinn frá Moskvu vorið 1938, þegar Vera var handtekin í hreinsunum Stalíns. Hún var send í fangabúðir, þar sem hún dó fimm árum síðar úr næringarskorti.
Jón rekur í bók sinni bréfaskipti Veru og Benjamíns. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: Greve hefur líka verið handtekin [svo]. Jón segir (bls. 173), að ekki sé ljóst hver Greve var. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann fæddist í Hamborg 1894, gekk í Kommúnistaflokk Þýskalands 1920 og fluttist til Rússlands 1924. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár.
Þetta væri því líkast, að Jón væri að segja sögu manns, sem hefði verið blaðamaður á Morgunblaðinu um 1950. Þar myndi Jón vitna í stutta athugasemd blaðamannsins í bréfi: Valtýr er nýkominn frá útlöndum og bæta við, að ekki væri ljóst, hver Valtýr væri. Valtýr Stefánsson var ritstjóri Morgunblaðsins 19241963.
Nafn Richards Greves er nefnt í fjölda rita um hreinsanir Stalíns. Sjálfur vitnar Jón Ólafsson í eitt slíkt rit, Sviknar hugsjónir (Verratene Ideale) eftir Oleg Dehl. Þar er sérstakur kafli um Deutsche Zentral-Zeitung með stuttu æviágripi Greves og mynd af honum.
Ég hef áður nefnt opinberlega ýmsar aðrar missagnir í bók Jóns. Því miður virðist hún vera jafnóáreiðanleg og fyrri bók hans, Kæru félagar, sem kom út 1999. En Jón fékk ekki aðeins styrki úr Rannsóknarsjóði og Bókmenntasjóði til að skrifa Appelsínur frá Abkasíu, heldur líka sérstök verðlaun Hagþenkis fyrir hana.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. janúar 2016.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook