22.12.2015 | 12:36
Glámskyggni Bandaríkjamanna á Lúðvík
Þótt Bandaríkjamenn reyndust Íslendingum vel í varnarsamstarfinu 19411946 og 19512006, virðast bandarískir sendimenn á Íslandi iðulega hafa verið glámskyggnir á íslenskar aðstæður. Í skýrslum frá bandaríska sendiráðinu fyrir og í bankahruninu 2008, sem birst hafa á Wikileaks, var til dæmis farið lofsamlegum orðum um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem sat í utanríkisráðherratíð sinni að skrafi við Assad Sýrlandsforseta og aðra svarna óvini Bandaríkjanna. Að sama skapi var Davíð Oddssyni hallmælt, þótt hann hefði reynst traustur vinur sem forsætisráðherra.
Þetta er ekkert nýtt. Í skýrslum bandarískra sendimanna á stríðsárunum var talað um sósíalista sem háværustu vini okkar, af því að sósíalistar hlýddu þá dyggilega línunni frá Moskvu um stuðning við Bandaríkin: Það hentaði Stalín, eftir að Hitler réðst á hann. Að sama skapi hlustuðu Bandaríkjamenn eftir stríð um skeið frekar á fylgislitla málvini en á raunsæja stjórnmálaleiðtoga eins og Ólaf Thors.
Eitt dæmið um glámskyggni Bandaríkjamanna var mat þeirra á Lúðvík Jósepssyni, sem var ráðherra 19561958 og 19711974. Bandaríski sendiherrann, John J. Muccio, skrifaði í skýrslu til utanríkisráðuneytisins 1956, að Lúðvík væri enginn Moskvukommúnisti. En Lúðvík Jósepsson var gallharður kommúnisti alla tíð, þótt hann væri vissulega líka hagsýnn stjórnmálamaður. Hann var í gamla Kommúnistaflokknum, uns hann var lagður niður 1938. Í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu hallaði hann aldrei orði á Kremlverja og var tíður gestur í Moskvu, þar sem hann reyndi eftir megni að auka viðskipti við Ísland.
Þegar Kremlverjar sprengdu kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni á Norður-Íshafi 1961, var Lúðvík einn fimm þingmanna, sem ekki vildu fordæma tilraunirnar. Hann sagði við Morgunblaðið 31. október: Ég óska ekki eftir að ræða þetta mál.
Í skjölum frá Moskvu kemur fram, að Lúðvík hélt á laun áfram tengslum við ráðamenn eystra, eftir að Alþýðubandalagið samþykkti 1968 að slíta slíkum tengslum. Þegar fréttir bárust 1978 af ofsóknum gegn andófsmönnum í Ráðstjórnarríkjunum, var hann eini íslenski stjórnmálaforinginn, sem ekki vildi fordæma þær. Hann sagði við Vísi 15. júlí: Ég óska ekki eftir því að segja eitt einasta orð um þetta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook