28.11.2015 | 10:18
Ámælisverð iðjusemi
Stundum verður mér hugsað til orða Árna Magnússonar: Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja. Jón Ólafsson heimspekingur er einna iðnastur Íslendinga við að hjálpa erroribus á gang. Bók hans um íslenska sósíalista, Kæru félagar, sem kom út 1999, er mjög óáreiðanleg um staðreyndir eins og nöfn, ártöl og atvik, jafnframt því sem ýmsar ályktanir eru glannalegar.
Á dögunum var ég að grúska í ævi og verkum konu, sem hét Elinor Lipper og sat í ellefu ár í fangabúðum Stalíns. Ég ákvað að að skoða, hvort Jón Ólafsson segði eitthvað um Lipper í nýlegri bók um svipað efni, Appelsínum frá Abkasíu. Svo reyndist vera. Jón skrifar (bls. 251): Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.
Í þessum tveimur stuttu setningum eru þrjár villur:
Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir.
Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912.
Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux og starfaði ásamt eiginmanni sínum, Konrad Vetterli, í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander.
Í heimildaskrá er getið bókarinnar Elf Jahre in Sowjetischen Gefängnisses und Lagern eftir Lipper, Chicago 1950, hjá Oprecht. Hið rétta er, að þýska bókin kom út hjá Oprecht í Zürich. Hin bandaríska þýðing kom út hjá Henry Regnery í Chicago ári síðar.
Jón Ólafsson minnist síðan ekki á, að bæði Tíminn og Vísir birtu útdrætti úr hinni stórmerkilegu bók Lippers 1951 og 1953.
Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. nóvember 2015. Myndina fékk ég af þjóðskjalasafni Sviss ásamt ýmsum skjölum um Lipper.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook