Hlutur Kristjáns konungs X. í Íslandssögunni

10_king_christian_x_visiting_the_student_camp_at_thingvellir_iceland.jpgÉg skrapp síðdegis á laugardag, 14. nóvember 2015, á ráðstefnu í Háskóla Íslands um samskipti Dana og Íslendinga, og fór hún fram á dönsku. Borgþór Kjærnested hélt erindi um dagbækur Kristjáns X., konungs Danmerkur og Íslands, en þær hélt hann um samskipti sín við Íslendinga. Auður Hauksdóttir talaði meðal annars um hugmyndir Dana um íslenska tungu. Bo Lidegaard, sagnfræðingur og ritstjóri Politiken, lýsti afstöðu Dana til sjálfstæðis Íslendinga.

Margt var nýtt í þessum erindum. Þegar ég hlustaði á Borgþór, sannfærðist ég um það, sem þeir Jón Krabbe, Bjarni Benediktsson og Sveinn Björnsson sögðu allir beint og óbeint í endurminningum sínum eða ritgerðum, að konungur hefði verið fjarlægur Íslendingum og jafnvel óvinsamlegur. (Kristmann Guðmundsson sagði hið sama í endurminningum sínum. Konungur sagði honum, að hann myndi ekki vilja lifa þar norður frá.) Borgþór vildi hins vegar auðheyrilega gera hlut konungs sem bestan.

Ég spurði Borgþór tveggja spurninga. Þegar Íslendingar lýstu yfir því 1928 (og aftur 1937), að þeir hygðust segja upp sambandslagasáttmálanum, þegar hann rynni út 1943, sögðu þeir ekkert um konungssambandið. Af hverju tók Kristján X. það svo óstinnt upp (hann hugleiddi 1928 að segja af sér konungstign á Íslandi samkvæmt upplýsingum Borgþórs)? Og konungur kom oft ókurteislega fram við Íslendinga, til dæmis þegar hann skálmaði um í hermannabúningi á Alþingishátíðinni 1930 þrátt fyrir óopinber tilmæli í aðra veru. Hvað væri um það að segja? Borgþór staðfesti, að aðeins var talað um sambandslagasáttmálann 1928, en gaf engar frekari skýringar á viðbrögðum konungs. Hann sagði síðan um einkennisbúninginn, að í Danmörku hefði konungur við ýmis tækifæri komið fram í hermannabúningi, og hann hefði haldið sama sið á Íslandi.  

Þegar ég hlustaði á Auði, flaug mér í hug, að danskir menntamenn ættu líklega meira í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en við hefðum talið, því að á öndverðri 19. öld báru þeir mikla virðingu fyrir fornmenningu Íslendinga og tungu, til dæmis þeir Rask og Oehlenschläger. Getur ekki verið, að íslensku stúdentarnir í Kaupmannahöfn hafi fyllst stolti yfir þessum áhuga og virðingu, það hafi auðveldað þeim að öðlast skýrari sjálfsvitund?

Þegar ég hlustaði á Lidegaard, velti ég því fyrir mér, hvort við hefðum ekki horft fram hjá hlut danska sendiráðsins í Washington í lýðveldisstofnuninni, en Lidegaard vakti athygli á henni og kvað hafa verið gott á milli Henriks Kauffmanns, danska sendiherrans, og Thors Thors, ræðismanns Íslands í New York. Ég veit, að aðrir fræðimenn hafa haft aðgang að dagbókum Carls A. C. Bruns, sem var hægri hönd danska sendiherrans, og Thors Thors. Fróðlegt verður að heyra meira um þetta. (Myndin að ofan er af Kristjáni X. á Alþingishátíðinni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband