Hverjir leyndust á bak við nöfnin?

donald.jpgÁrin 1954–1956 starfaði Donald Nuechterlein í upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna á Íslandi. Seinna skrifaði hann doktorsritgerð um íslensk utanríkismál, Ísland: Tregur bandamaður (Iceland, Reluctant Ally), 1961. En 1997 gaf Nuechterlein einnig út heimildaskáldsögu, þar sem þrír Íslendingar koma fyrir undir dulnefnum, Kaldastríðsslóðir (A Cold War Odyssey). Kallar Nuechterlein þar sjálfan sig David Bruening.

Ekki er sjálfgefið, hver einn Íslendingurinn í sögunni var, Jon Eliasson, ritstjóri Tímans, því að þeir voru tveir á þessum tíma, Haukur Snorrason og Þórarinn Þórarinsson. Eftir lýsingunni að dæma hefur þetta þó frekar verið Haukur. Voru ritstjórinn og upplýsingafulltrúinn góðkunningjar, þótt Tíminn gagnrýndi óspart umsvif Bandaríkjahers á Íslandi.

Auðveldara er að sjá, hverjum Nuechterlein gefur dulnefnið Jon Magnusson, en sá skyldi taka viðtal við bandaríska rithöfundinn William Faulkner, sem kom hingað á vegum upplýsingaþjónustunnar. Hann var Matthías Johannessen, og birtist viðtal hans við Faulkner í Morgunblaðinu 23. október 1955. „Er ekki betra að hafa bandarískan her hér í nafni frelsisins en rússneskan í nafni einræðis og ofbeldis, eins og á sér til dæmis stað í Eystrasaltslöndunum?“ spurði Faulkner.

mynd_1272365.jpgÞriðji Íslendingurinn er líka auðþekkjanlegur, Helgi Jonasson. Hann var Gylfi Þ. Gíslason. Hann sótti eitt sinn boð Nuechterlein-hjónanna, og sagðist kona gestgjafans hafa áhuga á skáldverkum Laxness. Nokkrum dögum síðar var Gylfi mættur heim til þeirra með enska þýðingu á Sölku Völku. Þegar sendiráðsmönnum barst til eyrna, að Alþýðuflokkurinn ætlaði að ganga til samstarfs við Framsóknarflokkinn og reka varnarliðið úr landi, var Nuechterlein beðinn að hafa samband við Gylfa til að komast að hinu sanna. Gylfi vildi ekki sjást með honum á veitingastað og bauð honum þess í stað heim til sín. Þar staðfesti hann, að þessi orðrómur væri réttur. Nú væru friðartímar og ekki lengur þörf á bandaríska hernum. Gylfi sýndi gesti sínum hróðugur uppdrátt af Íslandi og benti á þau kjördæmi, þar sem sameiginlegur frambjóðandi Framsóknarflokks og Alþýðuflokks gæti fellt þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Furðuðu Bandaríkjamenn sig á því, hversu opinskár Gylfi var. Muccio sendiherra (Monroe í sögunni) hreytti út úr sér við Nuechterlein: „Hann vill hrekja okkur burt á þeirri fáránlegu forsendu, að Ísland þurfi ekki lengur neinar varnir.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. nóvember 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband