Úrslit kosninganna

xd_malefni_trausturgrunnurÞegar Davíð Oddsson stóð upp úr stól borgarstjóra sumarið 1991, var tekist harkalega á um eftirmann hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Þau átök áttu eflaust þátt í því, að vinstri menn unnu meiri hlutann í borgarstjórn 1994. Augljóst er, að Davíð ætlaði ekki að láta hið sama gerast, þegar hann hvarf úr ráðherraembætti haustið 2005. Hann hafði undirbúið forystuskiptin vandlega, enda heppnuðust þau vel. Geir H. Haarde, sem Davíð studdi til formennsku, er mildur og þó fastur fyrir, vel menntaður og þaulreyndur úr starfi fjármálaráðherra. Í leiðtogahlutverkinu hefur hann á skömmum tíma unnið sér almennt traust. Hann ber með sér, að hann er góðgjarn og sanngjarn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sómir sér vel við hlið hans, kona með mikinn kjörþokka, baráttuglöð og vígfim. Undir hinni nýju forystu vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur í þingkosningunum 12. maí. Fylgi hans jókst talsvert upp fyrir meðaltal síðustu þrjátíu ára, þótt hann hafi leitt ríkisstjórn í sextán ár samfellt.

Forystuskiptin í Framsóknarflokknum tókust miður. Fyrst viku af vettvangi þeir tveir menn, sem þóttu hvað frambærilegastir og eðlilegastir eftirmenn Halldórs Ásgrímssonar, Finnur Ingólfsson og Árni Magnússon. Seint verður síðan sagt, að Halldór sjálfur hafi farið frá með glæsibrag. Sá vandræðagangur allur á áreiðanlega þátt í, að Framsóknarflokkurinn galt afhroð í kosningunum. Margoft hefur einnig verið bent á, að fylgistapið var mest á suðvesturhorninu. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hlaut flokkurinn svipað fylgi og í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári. Það hefur vitanlega sínar afleiðingar, að flokkurinn bauð þar ekki fram í tólf ár undir eigin nafni. Í þriðja lagi hafa sum ráðuneyti reynst flokknum erfið. Vert er þó að bera saman frammistöðu Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Eftir tólf ára stjórnarsetu tapaði Framsóknarflokkurinn 6% atkvæða frá síðustu kosningum. Eftir tólf ára stjórnarandstöðu tapaði Samfylkingin 4% atkvæða. Í því ljósi er tap Samfylkingarinnar sýnu tilfinnanlegra.

Aðalatriðið er, að ríkisstjórnin hélt velli. Síðustu sextán ár hefur Ísland tekið stakkaskiptum. Atvinnufrelsi hefur aukist stórkostlega, eins og alþjóðlegar mælingar sýna. Biðstofa forsætisráðherrans var tæmd, og nú ræður aðgangsharka í opinbera sjóði ekki ferðinni, heldur hæfileikar manna til að reka fyrirtæki. Fjármagn, sem áður lá eigendalaust og hálfdautt í ýmsum ríkis- eða samvinnufyrirtækjum, hefur lifnað við í höndum nýrra eigenda. Þrálát verðbólga fyrri tíðar hjaðnaði niður í hið sama og í grannríkjunum. Skuldir ríkisins voru greiddar upp. Skattar voru stórlækkaðir, úr 45% í 18% á fyrirtæki á tíu árum (1991-2001) og úr 41% í 36% á einstaklinga, líka á tíu árum (1997-2007). Virðisaukaskattur var einnig lækkaður á margvíslegum nauðsynjum. Þetta hefur leitt til aukinnar verðmætasköpunar, svo að skatttekjur ríkisins hafa stóraukist, jafnt af fyrirtækjum og einstaklingum. Fjármagnstekjur, sem áður voru óverulegar, skila einnig miklu í ríkissjóð.

Velferðarmál voru ekki vanrækt á þessum uppgangstímum. Lífeyrissjóðirnir íslensku eru hinir öflugustu í heimi, og þeir eru að fyllast, á meðan lífeyrissjóðir annarra landa eru að tæmast. Á Norðurlöndum eru lífeyristekjur á hvern lífeyrisþega hæstar á Íslandi, þótt nokkrir brallarar hafi haldið öðru fram í kosningabaráttunni (og var brella þeirra fólgin í því að reikna út lífeyristekjur á hvern mann á lífeyrisaldri, en á Íslandi vinna fleiri á þeim aldri fulla vinnu en annars staðar á Norðurlöndum og taka lífeyri síðar). Hér eru framlög ríkisins til þjónustu við aldraða líka hæst á hvern mann. Barnabætur á hvert barn eru hér hæstar á Norðurlöndum, en munurinn sá, að ríkir foreldrar fá ekki barnabætur, enda þurfa þeir þær ekki (og þess vegna er meðaltalið ekki hæst). Samkvæmt nýlegri könnun Evrópusambandsins eru færri hér undir eða við fátæktarmörk en víðast annars staðar í Evrópu. Tekjuskipting er hér líka jafnari. Hún er örlitlu jafnari í Svíþjóð og Slóveníu og ójafnari í 27 öðrum Evrópulöndum. Holur hljómur var því í öllu tali stjórnarandstöðunnar um aukinn ójöfnuð. En nú varðar mestu, að haldið sé áfram á sömu braut. Þess vegna má vinstri stjórn ekki taka við.

Fréttablaðið 18. maí 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband