4.11.2015 | 19:34
Kynþáttaandúð eða útlendingahræðsla?
Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra 19341942, hefur stundum verið brugðið um kynþáttaandúð. Tvennt er þá nefnt. Hingað hafði gyðingurinn Hans Rottberger flúið undan Hitler ásamt fjölskyldu sinni. Haustið 1937 átti að vísa fjölskyldunni úr landi. Rottberger leitaði í öngum sínum til danska sendiráðsins. Tók sendiráðsfulltrúinn Carl A. C. Brun málið upp við Hermann Jónasson í kvöldverði. Hermann var hinn vingjarnlegasti og lofaði að framlengja dvalarleyfi fjölskyldunnar í nokkra mánuði, en tók þó fram, eins og Brun færði í dagbók sína 17. nóvember 1937, að það væri grundvallarregla, að Ísland hefði alltaf verið hreint norrænt land, laust við gyðinga, og að þeir sem komnir væru til landsins skyldu aftur hverfa á brott.
Hitt dæmið hef ég rætt um áður. Það er setning í skeyti frá Bertil Kuniholm, ræðismanni Bandaríkjanna á Íslandi, til utanríkisráðuneytisins í Washington-borg 1. júlí 1941, þegar herverndarsamningurinn var undirbúinn: Forsætisráðherrann óskar eftir því, að engir negrar verði í sveitinni, sem skipað verður niður hér. Þessi setning var felld úr opinberri útgáfu bandarískra skjala um utanríkismál, án úrfellingarmerkis.
Líklega er rétt, sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur segir, að afstaða Hermanns var frekar til marks um almenna útlendingahræðslu Íslendinga en sérstaka kynþáttaandúð Hermanns sjálfs. Íslendingar höfðu búið hér einir í þúsund ár, að heita mátti. Stolt þeirra af fornum menningararfi blandaðist ótta um, að þessi fámenna þjóð týndi sjálfri sér, og sá ótti ummyndaðist iðulega í útlendingahræðslu, ekki síst gagnvart hópum, sem voru sérstakir um trú, háttalag eða hörundslit. Hermanni hefur líklega gengið það eitt til að forðast árekstra. Hann hefur eins og flestir Íslendingar verið vinsamlegur nærstöddu fólki, en litið á fjarstatt fólk sem nafnarunur í skjölum.
Þessi afstaða var þjóðinni þó ekki til sóma. Trúarbrögð eða hörundslitur eiga ekki að ráða því, hvaða útlendingar séu hér velkomnir, þótt með því sé ekki sagt, að allir útlendingar skuli vera hér velkomnir, til dæmis síbrotamenn, smitberar eða áreitnir öfgamenn. Ætíð er fengur að duglegu, sjálfbjarga fólki, og enn á það við, sem skáldið orti, að hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2015. Myndin er fengin af bloggi Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings af kvöldverðarboðinu, sem getið er hér að ofan. Hermann er merktur 1, Brun 2 og Thor Thors 3, en hann mælti síðar á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir aðild Ísraels.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook