29.10.2015 | 06:54
Kroner og Hitler
Þór Whitehead segir frá því í bókinni Ófriði í aðsigi, þegar Íslendingar björguðu gyðingafjölskyldu undan nasistum. Dr. Karl Kroner var frægur taugalæknir í Berlín. Kona hans, Irmgard Liebich, sem einnig var læknir, var áhugasöm um íslenska menningu, og þau hjón höfðu reynst Íslendingum í Berlín vel. Kroner var handtekinn eftir Kristalnóttina 10. nóvember 1938, en þá gengu nasistar berserksgang gegn gyðingum. Helgi P. Briem, fulltrúi Íslands í danska sendiráðinu í Berlín, sneri sér til kunningja síns, háttsetts nasista, bað Kroner griða og kvaðst geta komið honum til Íslands.
Eftir talsvert þóf slepptu nasistar Kroner lausum, en gáfu honum aðeins sólarhrings frest til að hypja sig úr landi. Tókst Helga með erfiðismunum að losa sæti í flugvél til Kaupmannahafnar og fylgdi Kroner út að vélinni. Kona Kroners og sonur þeirra komust síðar til Íslands. Fyrstu árin á Íslandi gat Kroner ekki starfað löglega sem læknir, því að lækningaleyfi voru bundin við ríkisborgararétt, en 1944 samþykkti Alþingi sérstaka undanþágu fyrir hann. Hann og fjölskylda hans fluttust þó skömmu síðar til Bandaríkjanna, en þau hjón báru ætíð hlýjan hug til Íslands, og voru jarðneskar leifar þeirra látnar að ósk þeirra í íslenska mold.
Hitt vita færri Íslendingar, að leyniþjónusta bandaríska flotans yfirheyrði Kroner hér á Íslandi árið 1943 vegna vitneskju, sem hann kynni að búa yfir um heilsufar Adolfs Hitlers. Seint í fyrri heimsstyrjöld starfaði Kroner á hersjúkrahúsinu Pasewalk í Pommern. Þá var sendur þangað liðþjálfi, sem talinn var hafa blindast af sinnepsgasi á vígstöðvunum. Hann hét Adolf Hitler. Sérfræðingur á sjúkrahúsinu, Edmund Forster, komst að sögn Kroners að þeirri niðurstöðu, að Hitler hefði ekki blindast í raun og veru, heldur fengið taugaáfall. Hann væri ekki blindur, jafnvel þótt hann tryði því sjálfur. Ekki leið á löngu, uns Hitler hafði fengið aftur fulla sjón.
Skýrsla leyniþjónustunnar um samtalið við Kroner hefur orðið uppspretta nokkurra nýlegra rita um sálarlíf Hitlers, en flest virðist þar vera getgátur einar. Hitt er annað mál, að eflaust hefur Hitler ekki kært sig um, að neinn vissi af sjúkdómsgreiningu Forsters, sem lést haustið 1933. Var hin opinbera ástæða talin sjálfsvíg, en Kroner kvaðst í samtalinu við leyniþjónustumenn telja, að nasistar hefðu myrt hann. Mál þetta og margt annað í æsku Hitlers er rakið skilmerkilega í bók eftir breska sagnfræðinginn Thomas Weber, Fyrsta stríð Hitlers (Hitlers First War), sem kom út hjá Oxford University Press 2010.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2015. Myndin er af Karli Kroner og tekin í fyrri heimsstyrjöld.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook