28.10.2015 | 19:32
Deilt um Jóhönnu við Einar Kárason
Einar Kárason skrifaði pistil um Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég gat ekki stillt mig um að gera athugasemd, enda blöskrar mér, ef á að gera þennan mistæka, þröngsýna og lítilsiglda stjórnmálamann, sem vissi ekki einu sinni, hvar Jón Sigurðsson var fæddur, að einhverri þjóðhetju:
Jóhanna gat ekkert í ríkisstjórn sem almennur ráðherra annað en heimtað og hótað eins og allir samstarfsmenn hennar geta borið vitni um. Og þegar hin stóra stund rann upp og hún átti að veita þjóðinni leiðsögn út úr erfiðleikum, brást hún í raun og veru. Hún hóf hefndaraðgerðir gegn gömlum andstæðingum, sem þó höfðu aldrei lagt illt til hennar ólíkt flokkssystkinum hennar, hrakti einn úr Seðlabankanum og lét höfða Landsdómsmál gegn öðrum (mál sem hún gat hæglega stöðvað). Hún gaf kröfuhöfum bankana á silfurfati, sló aðeins skjaldborg um heimili þeirra Más Guðmundssonar og Einars Karls Haraldssonar, en einskis alþýðufólks, og reyndi að keyra Icesave-samning, sem hefði fært okkur í skuldafjötra, óséðan í gegnum þingið. Hún lét upp úr þurru og að nauðsynjalausu kjósa stjórnlagaþing, en kosningin var dæmd ógild, og þá skipaði hún sama fólkið á samkundu, sem kom saman og söng á hverjum degi og breytti öllu í skrípaleik. Hún hafði engan skilning á möguleikum og takmörkunum stjórnmálanna, á list þeirra. Hún hélt ekki heldur á neinn hátt málstað Íslendinga á lofti gagnvart útlendingum, þegar helst þurfti á því að halda, heldur sat stúrin og þögul úti í horni. Hún beindi aldrei þeirri frekju sinni, sem samstarfsfólk hennar þekkti svo vel, að útlendingum. Þar var hvorki heimtað né hótað, heldur aðeins látið undan. Það þarf ekki að bæta við, að hún kom jafnan leiðinlega fram við undirmenn sína, heilsaði þeim varla, hvað þá meira. Þessi þingmannsdóttir (faðir hennar var háskólamenntaður maður, þingmaður Alþýðuflokksins og forstjóri Tryggingastofnunar) var af valdastétt Alþýðuflokksins, og fyrir slíku fólki var alþýðan aðeins orð til að nota í ræðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.11.2015 kl. 07:53 | Facebook