Hugleiðingar að loknum landsfundi

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 tókst mjög vel. Formaður flokksins og varaformaður, þau Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, eru mjög frambærileg og geðþekk, skynsöm og hófsöm. Kraftur er í nýjum ritara, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, og vonandi sýnir kjör hennar ungu fólki, að það er velkomið í Sjálfstæðisflokkinn. Þar á ungt hæfileikafólk líka heima: Á mestu ríður, að það fái tækifæri til að njóta sín, rækta hæfileika sína og koma þeim í verð, og það tekst aðeins í rúmgóðu skipulagi frjálsra viðskipta. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur þeirra, sem eru ríkir, heldur flokkur þeirra, sem vilja verða ríkir eða að minnsta kosti bjargálna og sjálfstæðir. Hann er flokkur möguleikanna.

Ungt fólk virðist þó almennt hafa minni áhuga á stjórnmálum en þeir, sem eldri eru, hugsanlega vegna þess að lífsháskinn hefur verið tekinn frá því. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að verjast yfirgangi Jónasar Jónssonar frá Hriflu og manna hans, og síðan ógnuðu kommúnistar því borgaralega skipulagi frelsis og fjölgunar tækifæra, sem flokkurinn studdi. Kalda stríðið var háð í fullri alvöru. Eftir fall kommúnismans tók við vaxtarskeið, sem lauk snögglega í fjármálakreppunni 2007–2009, en hún hafði víðtækar afleiðingar hér á landi. Nú er aftur komið góðæri, og margir telja það fyrirhafnarlaust, sjálfsagt. En svo er ekki. Berjast verður fyrir frelsinu, fyrir hagsmunum skattgreiðenda og neytenda, á hverjum degi.

Ég geri hér aðeins athugasemd við eina samþykkt landsfundarins. Þeir, sem vilja skoða upptöku erlendrar myntar til að tryggja stöðugleika í peningamálum, virðast fæstir hafa hugsað út í það, að við tókum einmitt upp aðra mynt fyrir nokkrum áratugum: Á Íslandi eru notaðir tveir gjaldmiðlar, óverðtryggð króna í venjulegum viðskiptum og verðtryggð króna í langtímaviðskiptum. Afleiðingin af því að taka upp erlendan gjaldmiðil, til dæmis Bandaríkjadal eða evru, væri svipuð og af því að nota verðtryggða krónu í öllum viðskiptum. Þá væri til dæmis ekki hægt að lækka laun og annan tilkostnað fyrirtækja óbeint með verðbólgu og falli venjulegu krónunnar, heldur yrðu launþegar annaðhvort að sætta sig við launalækkun eða hér yrði verulegt atvinnuleysi (eins og er í ESB-löndunum, þar sem allt að helmingur ungs fólks er atvinnulaus).

Annar gjaldmiðill er því enginn töfrastafur. Skuldugt fólk verður áfram skuldugt, hvort sem skuldirnar eru skráðar í krónum eða evrum. Og vextir verða ekki lágir í landi, þar sem jafnmikil eftirspurn er eftir lánsfé og á Íslandi, auk þess sem þrálátur óstöðugleiki (eins og verið hefur á Íslandi) veldur óvissu, sem endurspeglast í því, að lánveitendur krefjast hærri vaxta en ella.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband