26.10.2015 | 08:33
Ólafur Thors og Macmillan
Þegar viðreisnarstjórnin var mynduð í árslok 1959, erfði hún það verkefni að afla viðurkenningar Breta á útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur. Sunnudaginn 25. september 1960 kom Harold Macmillan, forsætisráðherra Breta, við á Keflavíkurflugvelli á vesturleið og snæddi hádegisverð með Ólafi Thors forsætisráðherra. Fór vel á með þeim, og skömmu síðar tókust samningar milli þjóðanna tveggja.
Macmillan minntist Ólafs Thors hins vegar með lítilsvirðingu í endurminningum sínum. Hann nefndi hann ekki með nafni, en kvað hann hafa útskýrt í löngu máli hættuna af kommúnistum: „Íslenski forsætisráðherrann var geðfelldur gamall náungi, en bersýnilega veikburða maður í veikri aðstöðu.“ Ólafur var raunar aðeins tveimur árum eldri en Macmillan. En hinn sléttmáli, sjálfsöruggi Breti, sem borinn var til auðs, menntaður í Eton og Oxford og kvæntur hertogadóttur, hafði ekki haft fyrir því að kynna sér aðstæður hér.
Bretland hafði á að skipa öflugum her og þrautþjálfuðu lögregluliði. Þar voru stóru flokkarnir tveir sammála um utanríkisstefnuna og áhrif kommúnista hverfandi. Hið fámenna íslenska ríki hafði hins vegar sjálft engum her á að skipa. Hér starfaði öflug kommúnistahreyfing. Alls hlutu 23 íslenskir kommúnistar þjálfun í vopnaburði, götubardögum og óeirðum í Moskvu árin 1929–1938. Kommúnistar höfðu yfirbugað Reykjavíkurlögregluna í götuóeirðum 9. nóvember 1932. Þeir höfðu veist að Ólafi Thors og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins 1946 vegna Keflavíkursamningsins. Þeir höfðu ráðist á Alþingishúsið 30. mars 1949, þegar þar var rætt um aðild að Atlantshafsbandalaginu, þótt lögreglan gæti hrundið þeirri árás með aðstoð varaliðs. Ég hef síðan lagt fram útreikninga um, hversu mikils fjárstuðnings íslenskir kommúnistar nutu frá Moskvu. Nam hann árin 1955–1970 um hálfum milljarði króna á núvirði.
Ólafur Thors var ekki veikburða maður í veikri aðstöðu. Hann var lífsreyndur maður í erfiðri aðstöðu. Vegna hygginda hans og hugrekkis varð þessi erfiða aðstaða ekki óbærileg.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2015. Á myndinni sést Ólafur, lengst t. h., með Hermanni Jónassyni og Einari Olgeirssyni í veislu 1956, þegar dönsku konungshjónin komu í opinbera heimsókn. Hermann keppti við Ólaf um forsætisráðherrastólinn og var reiðubúinn að leggja varnarsamstarfið í sölurnar fyrir hann, og Einar gekk erinda Ráðstjórnarríkjanna á Íslandi og fékk til þess stórfé, allt að 30 milljónum króna á ári.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Facebook