21.8.2015 | 14:20
Draumar fortíðar og draugar samtíðar
Ég skrifaði svohljóðandi athugasemd á Facebook í gær:
Ég hitti Atla Harðarson heimspeking á Þjóðarbókhlöðunni. Hann hafði það eftir Bjarna bróður sínum, að flokkaskiptingin íslenska ætti rætur aftur í Þjóðveldið. Ég svaraði: Enginn vafi. Þórarinn Nefjólfsson, sem vildi koma okkur undir erlent vald, var Samfylkingarmaður. Einnig Guðmundur biskup, sem var góður fyrir annarra manna fé og skildi allt eftir í óreiðu á Hólum. Dæmigerður Samfylkingarmaður. Snorri Sturluson var hins vegar sjálfstæðismaður. Sá maður, sem skrifaði ræðu Einars Þveræings (gegn ofursköttum og misvitrum valdsmönnum), var auðvitað sjálfstæðismaður.
Margt var sagt um þessa færslu, og er hér aðeins sumt greint. Úlfar Hauksson, sem er lærisveinn Baldurs Þórhallssonar ESB-trúboða og hefur kennt í stjórnmálafræðideild, skrifaði:
Var Snorri Sturluson ekki fyrst og fremst heimsborgari og menntamaður sem mundaði stílvopnið og beitti orðræðu frekar en hnúum og bareflum? Hugsjónir hans hölluðust því fremur að umræðustjórnmálum en átakatstjórnmálum og leikjafræði realista. Var hinn mjúki af ætt Sturlunga. Sem sagt alls ekki dæmigerður sjálfstæðismaður dagsins í dag.
Ég svaraði:
Hann var dæmigerður sjálfstæðismaður, af því að hann tortryggði valdið, sérstaklega konungsvaldið, eins og sjá má af ræðu Einars Þveræings. Hann var í hjarta sínu á móti því, að við gengjum Noregskonungi á hönd. Öll Heimskringla er viðvörun við konungsvaldinu. Sturla Þórðarson var hins vegar konungsvaldssinni. Heimsmenn eru einmitt þeir, sem geta verið alþjóðlegir og þjóðlegir í senn, sameinað andstæðurnar í sjálfum sér, vaxið upp úr þeim. Dæmi um þetta eru Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein. Heimsmenn eru ekki þeir, sem gera lítið úr landi sínu og þjóð og lepja kaffi eða rauðvínsgutl á vinstri bakka Signu (með fé að láni á lágum vöxtum frá íslenskum almenningi). Heimsmenn eru ekki þeir, sem kikna í hnjáliðum, þegar þeir heyra erlenda tungu talaða.
Viktor Orri Valgarðsson, sem stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði í Bretlandi og hefur aldrei gert athugasemdir, svo að ég viti, við ESB-trúboðið á Íslandi, skrifaði:
Þetta er eitthvað allra dásamlegasta dæmið um svarthvíta pólitíska hugsun sem ég hef séð lengi - og þá er nú mikið sagt.
Ég svaraði:
Samfylkingin hugsaði ekki um neitt annað síðustu vikuna fyrir bankahrunið og í því miðju en að reyna að hrekja úr embætti eina manninn, sem hafði næstu tvö ár á undan reynt að vara við útþenslu bankanna, Davíð Oddssyni. Síðan gerði hún samninga um Icesave, sem engin stoð var fyrir í lögum eða siðferðisvitund okkar, en hefðu brennimerkt Sjálfstæðisflokkinn. Eftir þetta hefur hún gerst einsmálsflokkur, sem trúir á Evrópusambandið af sama ákafa og Þórarinn Nefjólfsson þjónaði Ólaf digra. Hún er flokkur þeirra, sem skammast sín fyrir að vera Íslendingar. Taugar hennar eru ekki til fortíðarinnar, Egils Skallagrímssonar, Snorra Sturlusonar, Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafsteins, heldur til skriffinnanna í Brüssel. Ég hætti að sækja deildarfundi í minni deild, eftir að farið var að tala ensku á deildarfundum í háskóla, sem var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, svo að við gætum lesið íslensk lög, íslenska sögu, íslenskrar bókmenntir, ekki dönsk lög, danska sögu, danskar bókmenntir (og því síður ensk lög, enska sögu, enskar bókmenntir).
Einn okkar ágætasti rithöfundur, Guðmundur Andri Thorsson, dálkahöfundur í blaði Jóns Ásgeirs og Ingibjargar (sem búsett eru erlendis eins og selstöðukaupmenn), skrifaði:
Sennilega alveg rétt hjá þér Hannes. Snorri veðjaði á rangan hest í Noregi og hafði eins og þið oftrú á eigin dómgreind og "samböndum", þegar þið klúðruðuð sambandi Íslands við Bandaríkin um aldur og ævi fyrir brottför hersins. Snorri studdi Skúla jarl til metorða í Noregi og hélt að hann myndi gera sig að jarli yfir Íslandi. Það fór eins og það fór. Snorri var fjáraflamaður eins og þið, valdaplottari eins og þið og fremur illa liðinn eins og þið. En ólíkt ykkur var hann snjall rithöfundur, eða kannski bara snjall í að láta búa til bækur fyrir sig. Ræða Einars þveræings er hins vegar skrifuð af einhverjum VG-manni. Kannski nafnlaus munkur eða nunna.
Ég svaraði:
Líklega er Guðmundur Andri Thorsson fyrsti Íslendingurinn, sem reynir að mæla aðförinni að Snorra 1241 bót eða skýra hana sérstaklega honum til niðrunar. En ræða Einars Þveræings hefur hins vegar verið misskilin áður: Hún er ekki ræða gegn bandaríska varnarliðinu á Miðnesheiði, heldur gegn ofursköttum konunga. Íslendingar voru vissulega ekki tregir til að játast Noregskonungi 1262 vegna þjóðernisstefnu, sem kom síðar til sögu, heldur vegna ótta um ofsköttun. Þeir töldu, að konungar væru vísir til að leggja á þá of þunga skatta og skyldur. Þetta var auðvitað alveg rétt hjá bændunum, enda hneyksluðust þeir Vilhjálmur af Sabína og Loðinn Leppur yfir þeim, eins og þú núna yfir okkur.
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, sem hefur skrifað prýðilegar bækur um Hannes Hafstein og Jón Sigurðsson og varð sem betur fer ekki ósnortinn af þeim hetjum, skrifaði:
Voru kannski Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson flokksmenn Þórarins Nefjólfssonar þegar þeir komu okkur undir EES?
Ég svaraði:
EES var ekki afsal á fullveldi. Það var svipað samningnum, sem Íslendingar gerðu 1022 við Noregskonung um gagnkvæman rétt Íslendinga og Norðmanna í löndunum tveimur. ESB er hins vegar hliðstætt samningnum, sem Íslendingar gerðu nauðugir 1262, af því að þeir óttuðust einangrun landsins. Hins vegar er rétt, að Jón Baldvin er flokksbróðir Þórarins Nefjólfssonar.
Guðjón svaraði:
Góður ertu Hannes. Auðvitað var EES afsal á fullveldi. Við höfum engin áhrif á setningu þeirrar löggjafar sem Alþingi verður að gangast undir í stórum stíl frá ESB. Annars er svona samanburður við þjóðveldis- og Sturlungaöld í besta falli hlægilegur nú til dags. Þetta var iðkað mjög í sjálfstæðisbaráttunni og ekki síst í sambandi við hersetu Íslands. Á kaldastríðsárunum var Þórarinn Nefjólfsson oftast Sjálfstæðismaður. Samkvæmt þér hefur hann sem sagt skipt um flokk.
Ég svaraði:
Nú, svo að Jón Baldvin var að segja ósatt, þegar hann fullyrti á þingi (og fékk stuðning mikilsvirtra lögfræðinga), að EES samningurinn væri ekki afsal á fullveldi? Og það er ekkert hlægilegt við það að vísa til forfeðra okkar: Við njótum þeirra sérréttinda að skilja tungu þeirra og geta lesið bækur þeirra. Þeir eiga sálufélag með okkur. Það eiga herrarnir í Brüssel ekki. Rök Snorra Sturlusonar gegn konungsvaldi eru jafngild nú og þau voru fyrir nær átta hundrað árum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook