17.8.2015 | 14:18
Engin stefnubreyting Sjálfstæðisflokksins
Margt er sagt af fullkominni fáfræði og barnaskap þessa dagana um utanríkismál. Það hefur alltaf verið stefna íslenskra stjórnvalda að selja fisk fremur en að reyna að bjarga heiminum, enda er hið síðarnefnda ekki á okkar færi.
- Árið 1922 beygðu Íslendingar sig fyrir Spánverjum, sem vildu ekki kaupa fisk af okkur, nema við felldum áfengisbannið úr gildi. Þetta var auðvitað skerðing á nýfengnu fullveldi.
- Íslendingar tóku ekki þátt í refsiaðgerðum gegn Ítölum vegna innrásar Mússólínis í Eþíópu, því að þeir vildu selja fisk til Ítalíu.
- Árið 1939 beygðu Íslendingar sig fyrir kröfum þýsku stjórnarinnar og bönnuðu bók eftir Wolfgang Langhoff um fangabúðir nasista í Þýskalandi, af því að þeir vildu ekki styggja voldugan viðskiptavin, heldur halda áfram að selja fisk til Þýskalands. (Hermann Jónasson lét gera bókina upptæka, en eftir hernám Breta var hún þegjandi og hljóðalaust sett á markað.)
- Eftir að Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk eftir útfærslu landhelginnar í fjórar mílur 1952, sneru Íslendingar (undir forystu Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og Ólafs Thors sjávarútvegsráðherra) sér að Ráðstjórnarríkjunum, sem hófu mikil fiskkaup. Fór um 30% útflutningsins til þeirra um nokkurt skeið.
Eflaust hafa Íslendingar gengið of langt stundum í að vernda hagsmuni sína á kostnað hugsjóna, til dæmis þegar Hermann Jónasson bannaði útgáfu bókar Wolfgangs Langhoffs 1939. En það breytir því ekki, að skyldur okkar eru umfram allt við Íslendinga sjálfa. Við þurfum að komast af í hörðum heimi, og þar er ekkert sjálfgefið.
Síðan höfum við auðvitað skyldur við bandamenn okkar í Atlantshafsbandalaginu (og þeir við okkur). En við höfum engar sérstakar skyldur við Evrópusambandið af þeirri einföldu ástæðu, að við erum ekki í því og ætlum ekki í það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook