10.8.2015 | 11:21
Óhlýðnuðust íslenskir kommúnistar Stalín?
Haustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Þar minnist ritgerðarhöfundur á deilu þeirra Jóns Ólafssonar heimspekings og Þórs um, hvort Sósíalistaflokkurinn hafi verið stofnaður 1938 með eða á móti vilja Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns. Í Sósíalistaflokknum sameinuðust sem kunnugt er kommúnistar, er lögðu þá flokk sinn niður, og hópur úr vinstra armi Alþýðuflokksins.
Í rússnesku skjalasafni hafði Jón Ólafsson fundið minnisblað, sem starfsmaður Kominterns hafði skrifað forseta sambandsins eftir að hafa fengið skýrslu frá Einari Olgeirssyni um fyrirhugaða stofnun. Lýsti starfsmaðurinn efasemdum um, að rétt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn í stað þess að mynda með honum öfluga samfylkingu gegn borgaralegum flokkum (sem var þá aðallína Kominterns). Af þessu minnisblaði dró Jón þá ályktun, að Komintern hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins. Þór benti á, að það væri fráleitt. Þetta hefði verið minnisblað skrifstofumanns, en engin heimild um opinbera afstöðu Kominterns. Engin önnur gögn bentu til þess, að stofnun flokksins hefði verið í óþökk Kominterns, og raunar hefðu hinum nýja flokki verið fluttar kveðjur kommúnistaflokka Danmerkur og Svíþjóðar á stofnhátíðinni.
Pontus Järvstad telur deiluna óútkljáða. En á Þjóðskjalasafninu hafði ég (með aðstoð Snorra G. Bergssonar sagnfræðings) upp á heimild, sem ég birti 2009 og eyddi öllum vafa um málið. Það er afrit af bréfi með heillaóskum frá Michal Wolf (öðru nafni Mihály Farkas) hjá Alþjóðasambandi ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, sem leysti af hólmi Samband ungra kommúnista. Þar segir, að úti í Moskvu hafi menn lesið stefnuskrá Æskulýðsfylkingarinnar og séu ánægðir með hana. Hefði Sósíalistaflokkurinn verið stofnaður í óþökk Kominterns, þá hefði þetta bréf aldrei verið skrifað. En einkennilegt er, að þessarar heimildar sé ekki getið í ritgerðinni. Ef til vill er skiljanlegt, að hún hafi farið fram hjá ungum sagnfræðinema, þótt ég vísi raunar í hana í bók minni, sem hann ræðir sérstaklega um í ritgerð sinni. En vissi leiðbeinandinn ekki af þessari heimild?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. ágúst 2015.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook