3.8.2015 | 10:02
Tvær sögufalsanir á Wikipedia
Wikipedia, frjálsa alfræðibókin á Netinu, er stórfróðleg. En hún er ekki alltaf áreiðanleg, svo að nemendur í skólum að fræðimönnum ógleymdum, verða að leita uppi frumgögn, sé þess kostur. Hér nefni ég tvö dæmi.
Á þýsku Wikipediu er æviágrip dr. Brunos Kress málfræðings. Þar sagði í upphaflegri útgáfu, sem birtist fyrst í mars 2010, að Kress hefði flúið undan Gestapo til Íslands og gerst þýskukennari hér. Heimildin var samkennari hans í Greifswald-háskóla, Hans Reddemann, sem hafði skrifað bækling um látna samferðamenn. Ég rak upp stór augu, þegar ég sá þetta. Kress kom til Íslands 1932, gekk 1934 í Nasistaflokkinn og var einn ötulasti félagi hans. Á meðan hann dvaldist hér, fékk hann styrk frá rannsóknarstofnun SS, Ahnenerbe, en Heinrich Himmler, yfirmaður SS og Gestapo, var áhugamaður um norræn fræði. Eftir að Bretar hernámu Ísland, var Kress í haldi þeirra, en komst í fangaskiptum til Þýskalands 1944. Hann settist eftir stríð að í Austur-Þýskalandi og gekk í kommúnistaflokkinn þar. Ég hef síðan tekið eftir því, að upphaflega færslan hefur verið leiðrétt.
Á ensku Wikipediu er kafli, Twenty-one Conditions, um 21 inntökuskilyrði, sem Alþjóðasamband kommúnista setti kommúnistaflokkum árið 1920 (Moskvuskilyrðin). Þriðja skilyrðið var, að slíkir flokkar yrðu að stofna hliðarsamtök til að undirbúa byltinguna, enda væri stéttabaráttan að breytast í borgarastríð í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku. Í enska kaflanum á Wikipediu heitir þetta parallel organisational apparatus. Ég mundi þetta öðru vísi, svo að ég fletti upp þýska frumtextanum, sem er víða tiltækur á Netinu (en ekki er þó sambærilegur kafli á þýsku Wikipiediu um inntökuskilyrðin). Þar er talað um parallelen illegalen Organisationsapparat eða ólögleg hliðarsamtök. Ég fletti líka upp hinni viðurkenndu ensku þýðingu í bók, sem ég hafði notað á sínum tíma, The Communist International, 19191943. Documents, I. (Oxford, 1956). Þar eru orðin parallel illegal organization á sama stað (bls. 169). Sitt er hvað, hliðarsamtök og ólögleg hliðarsamtök. Ég sé ekki betur en enski textinn á Wikipediu (sem tekinn er af heimasíðu marxistasamtaka) sé rangur, en hann hafði ekki verið leiðréttur, síðast þegar ég vissi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. ágúst 2015. Efri myndin er af einu bréfi Kress til Ahnenerbe, en neðri myndin er þriðja inntökuskilyrðið í Komintern á frummálinu, þýsku.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Facebook