2.8.2015 | 12:38
Hvernig ég reiknaði út Rússagullið
Morgunblaðið birtir 31. júlí 2015 frétt um grein, sem ég skrifaði í síðasta hefti Vísbendingar um, hvers virði Rússagullið var, hátt í hálfs milljarðs ísl. kr. virði núvirt og uppreiknað. Hér ætla ég aðeins að skýra stuttlega, hvernig ég reiknaði þessa háu fjárhæð út. Vitað er um margvísleg framlög, til dæmis 15 þúsund Bandaríkjadali árið 1955, eins og Kjartan Ólafsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, benti á í grein í Morgunblaðinu 2006.
Fyrst verður að taka tillit til þess, að þetta var skattfrjálst fé. Það hefur sennilega aldrei komið inn í hagkerfið í kaupum á vöru eða þjónustu, heldur annaðhvort verið notað til að greiða erlendar skuldir eða til að greiða mönnum undir borðið fyrir vinnu eða efni. Þess vegna verður að reikna þetta upp miðað við skatthlutfall hvers árs. Ég fann það hlutfall á vef hagstofunnar (hlutfall heildartekna hins opinbera af vergri landsframleiðslu). Fyrir árið 1955 var það 24,70%. Það merkir, að 15.000 í skattfrjálsum tekjum (hvort sem er í krónum eða dölum) samsvara þá 19.920 í skattlögðum tekjum. Verðmætið, sem verður eftir í hendi lokaviðtakandans, jafngildir þá 15 þúsund.
Síðan þarf að núvirða þetta fé, athuga, hvernig kaupmáttur Bandaríkjadals hefur breyst (rýrnað með verðbólgu). 19.920 Bandaríkjadalir árið 1955 samsvara skv. reiknivél á Netinu 175.186 Bandaríkjadölum árið 2015.
Síðan þarf að umreikna dalina í krónur á genginu núna. Það er einfaldast að gera á viðskiptasíðu Morgunblaðsins, þar sem er myntbreytir. Til dæmis eru 175.186 dalir nú 23.590.546,76 kr.
Þannig reiknaði ég það út, að bein framlög úr sjóði Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna til Sósíalistaflokksins og hliðarsamtaka hans (Máls og menningar) hefðu numið um 2,5 milljónum Bandaríkjadala núvirt og uppreiknað, en bætti síðan við ýmsum óreglulegum greiðslum og styrkjum, sem vitað er um. Þessir útreikningar eru allir birtir í Vísbendingu, og vísa ég mönnum á hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook