Churchill, de Gaulle og íslenskir kommúnistar

churchilldegaulle.jpgHaustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Pontus gagnrýnir þá athugasemd mína, að andstæðingar nasismans hefðu á sínum átt önnur ráð en að rjúka í fangið á Stalín, til dæmis getað gerst lýðræðissinnar og tekið sér stöðu með Churchill og de Gaulle. Um þetta segir Pontus (í íslenskun minni) á bls. 40–41: „Með þessa svarthvítu kaldastríðssýn gleymir Hannes því, að Churchill og de Gaulle voru fulltrúar tveggja elstu nýlenduvelda og kapítalistaríkja heims.“

Nú gegndu þeir Churchill og de Gaulle engum aðalhlutverkum í bók minni. Ég nefndi þá tvo til að sýna, að þá var fleiri kosta völ en Hitlers og Stalíns. En ritgerðarhöfundur hefði getað valið heppilegri mótrök. Ungur hafði Churchill vissulega hlotið ríkulegan skerf af algengum fordómum samtímans um yfirburði Vesturlandabúa, einkum þeirra þjóða, sem nytu hins engilsaxneska menningararfs. En hann var forsætisráðherra ríkis, sem bauð Indverjum sjálfstæði gegn því, að þeir styddu Bandamenn í stríðinu við Hitler. Þótt leiðtogar Þjóðarflokks Gandhis höfnuðu boðinu, var því tekið í reynd: 2,5 milljónir Indverja börðust í her Bandamanna, og eftir stríð hlutu Indverjar sjálfstæði.

Aðdáun de Gaulles á hinum franska menningararfi var áreiðanlega eins áköf og Churchills á hinum engilsaxneska. En eftir að de Gaulle tók við völdum í Frakklandi 1958, veitti hann Alsír sjálfstæði gegn harðvítugri andstöðu. Vegna þess var oft reynt að ráða hann af dögum. Rifja verður líka upp, að Bretar og Frakkar leystu upp nýlenduveldi sín um og eftir 1960.

Yngsta nýlenduveldið var hins vegar undir stjórn Stalíns. Þeir Hitler sömdu í ágúst 1939 um að skipta Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Stalín átti að fá Finnland, Eystrasaltsríkin og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands og fleiri svæði. Eftir stríð hélt Stalín sínu, og við veldi hans bættust ýmis leppríki. Leystist þetta veldi ekki upp fyrr en árin 1989–1991. Og þau lönd kapítalismans, sem best hefur vegnað, hafa ekki verið nýlenduveldi, til dæmis Sviss, og sum eru jafnvel fyrrverandi nýlendur, svo sem Hong Kong. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. júlí 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband