Óvandvirkur rannsóknarblaðamaður

Maður að nafni Atli Þór Fanndal hefur gert sér títt um mína hagi síðustu misserin. Hann kynnir sig sem rannsóknarblaðamann. Það er auðvitað vafamál, hversu miklum tíma á að verja í að svara slíkum mönnum og leiðrétta villur þeirra og missagnir, en ég sé, að tveir prófessorar í Háskóla Íslands, þeir Þorvaldur Gylfason og Svanur Kristjánsson, hafa framsent til vina sinna á Snjáldru (Facebook) grein eftir Atla Þór, sem er aðallega um mig. Ég ætla því að gera nokkrar stuttar athugasemdir í von um, að missagnir Atla Þórs öðlist ekki sjálfstætt líf og fari á flug:

1. Atli Þór hafði ekki samband við mig við samningu greinar sinnar, og er það alvarlegur galli á vinnubrögðum hans.

2. Atli Þór ræðir um lektorsmálið 1988, þegar mér var veitt lektorsstaða í stjórnmálafræði. Þar kemur ekki fram, að ég var eini umsækjandinn með doktorspróf í stjórnmálafræði, og var það frá félagsvísindadeild Oxford-háskóla 1985. Hinir umsækjendurnir tveir, sem nutu stuðnings, höfðu hvorugur þá lokið doktorsprófi, þótt þeir gerðu það báðir síðar (annar frá Essex, hinn frá LSE). Þegar af þeirri ástæðu þótti dómnefndarálitið, sem Svanur Kristjánsson var í forsvari fyrir, undarlegt.

2. Atli Þór ræðir það ekki, að hinir umsækjendurnir tveir, sem nutu stuðnings, kærðu stöðuveitinguna til mín til umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Taldi umboðsmaður, að sjálfsagt hefði verið að leita til erlendra umsagnaraðila vegna hinnar óljósu niðurstöðu dómnefndarinnar, sem hafði talið mig hæfan til að kenna sumt í stjórnmálafræði, en ekki annað (af því að fyrsta próf mitt var ekki í stjórnmálafræði, heldur sagnfræði og heimspeki).

3. Atli Þór segir, að ég hafi 2008 verið dæmdur fyrir ritstuld vegna ævisögu minnar um Halldór Laxness. Það er ekki rétt, eins og margoft hefur komið fram. Ég var dæmdur fyrir brot á höfundarrétti. Ég reyndi auðvitað hvergi að leyna því, að ég nýtti mér ýmsar lýsingar Laxness á æsku sinni mjög rækilega. Hæstiréttur taldi, að ég hefði farið of nærri textum skáldsins, og verður að virða þá niðurstöðu, um leið og benda má á, að sjálft fór skáldið mjög nærri textum annarra, til dæmis Magnúsar Hjaltasonar í Heimsljósi og Ralphs Fox í smásögu um Temúdsjín.

4. Atli Þór segir, að fyrirtækið Líf og sál hafi unnið skýrslu um samskiptavanda innan stjórnmálafræðideildar Háskólans og ég verið leystur undan stjórnunarskyldu við deildina eftir það. Ég veit ekki, hvað kom fram í þessari skýrslu, enda var ég erlendis, þegar hún var kynnt á kennarafundi. En þar sem ég hef aldrei verið yfir aðra settur í deildinni, hef ég aldrei haft getu til yfirgangs við samkennara mína og auðvitað því síður vilja til þess. Af sjálfu leiðir, að ég kem því ekki til greina í neinum hugsanlegum aðfinnslum um yfirgang eða misbeitingu valds. Ég hafði hins vegar áhuga á að þurfa ekki að sitja deildarfundi (þótt ég hafi rétt til þess) vegna þess, að mér blöskraði, að þar var töluð enska. Mér fannst það vart við hæfi í Háskóla, sem stofnaður var á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, svo að íslenskir stúdentar gætu lært íslensk lög, ekki dönsk, íslenska sögu, ekki danska, íslenskar bókmenntir, ekki danskar.

Ég gæti gert margar fleiri athugasemdir við þessa „fréttaskýringu“ Atla Þórs, en læt þetta duga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband